Innlent

Nemandi í FG: „Öll borðin eru kjaftfull af rusli“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nemendur í FG mega margir hverjir taka sig á í umgengni ef marka má aðgerðir skólastjóra.
Nemendur í FG mega margir hverjir taka sig á í umgengni ef marka má aðgerðir skólastjóra. Vísir/Sigurjón
Kristinn Þorsteinsson skólameistari lokaði mötuneytinu í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ í gær og í dag. Um uppeldisráð er að ræða en nemendur eru sagðir ganga afar illa um. Nemendur hafa því engan aðgang að mat og drykk í skólanum þessa tvo daga og þurfa að mæta með nesti eða fara í göngutúr í næstu búð.

Rögnvaldur Ágúst Ragnarsson, nemandi í FG, ræddi málin í útvarpsþættinum Brennslunni á FM957 í morgun og viðurkenndi að hegðun nemenda hvað umgengni ræðir væri ekki góð.

„Umgengni hefur verið mjög slæm síðustu vikur,“ sagði Rögnvaldur í þættinum. Hann sagði alls ekki um stæla að ræða í Kristni Þorsteinssyni skólameistara heldur kynnti hann þetta fyrir nemendum sem uppeldisráð.

Aðspurður hvort málið tengdist því eitthvað að um unglinga úr Garðabæ væri að ræða sagðist Rögnvaldur í það minnsta ekki hafa heyrt af því að loka þyrfti mötuneytum í öðrum skólum vegna slæmrar umgengni nemenda.

Starfsfólkið langþreytt

Rögnvaldur segir að það komi fyrir að nemendur hendi rusli á gólfið en þetta snúist aðallega að borðunum í mötuneytinu.

„Öll borðin eru kjaftfull af rusli,“ segir Rögnvaldur. Starfsfólk í mötuneytinu sé orðið langþreytt á að þrífa upp eftir menntaskólanema sem geti ekki farið með umbúðir, diska og fleira á réttan stað.

Rögnvaldur segist hafa heyrt af pirringi nemenda sem geta ekki fengið sér kaffi, vatn eða keypt nokkuð í skólanum. Nú verði bara að mæta með nesti að heiman. „Það er ekkert annað í stöðunni.“

Mötuneytið verður opnað aftur á mánudaginn og verður fróðlegt að sjá hvort umgengni í mötuneytinu verði betri að loknu þessu útspili skólameistarans.

Viðtalið við Rögnvald í Brennslunni má finna hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×