Innlent

Neitar að hafa ráðist á barnsmóður sína

Við aðalmeðferðina í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Við aðalmeðferðina í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. vísir/gva
Aðalmeðferð í máli ríkissaksóknara á hendur 29 ára gömlum karlmanni fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Maðurinn er ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gegn barnsmóður sinni við Perluna í Öskjuhlíð í maí síðastliðnum. Maðurinn neitaði sök í málinu.

Honum er gefið að sök að hafa brotið hliðarrúðu bíls hennar, dregið hana úr bílnum, slegið hana ítrekað í andlit og höfuð, hrint henni í jörðina þar sem hún lá í jörðinni og sparkað ítrekað í andlit hennar og höfuð. Maðurinn gekkst við að hafa brotið rúðuna en segist ekki hafa ráðist á hana.

„Hún rýkur þá út [úr bílnum] brjáluð og rífur í mig. Ég fleygi henni í gras og þrykki bíllyklinum á eftir henni og keyri burt. Ég hrinti henni ekki á malbik. Ég hrinti henni í grasið,“ sagði maðurinn í vitnaleiðslum og bætti við að hún hefði verið í annarlegu ástandi.

„Hún kýldi mig og sparkaði í mig og vörin mín sprakk og ég fékk blóðnasir.“

Sögur þeirra samrýmdust þó ekki og hafði hún aðra sögu að segja. Gekkst hún ekki við að hafa verið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna og sagðist ekki hafa ráðist á barnsföður sinn.

„Ég panikka“

„Ég sé hann er mjög reiður og ég panikka. Ég reyni að læsa hurðinni og þá brýtur hann farþegarúðuna með olnboganum. Tekur þá í hárið mitt og kýlir mig á fullu. Lemur mig, hendir mér á húddið og heldur áfram að lemja mig og ég sparka í hann,“ sagði konan. 

„Svo keyrði hann burt og ég stóð upp í öllu blóðinu, fann ekki símann minn og ekki bíllykla og sat heillengi í bílnum í sjokki,“ sagði hún.

Í miklu uppnámi

Rúmlega klukkustund síðar gekk hún á nálæga bensínstöð og hringdu starfsmenn bensínstöðvarinnar á lögreglu. Var hún flutt á slysadeild þar sem hlúð var að sárum hennar. Lögreglumaður sem kom á vettvang og bar vitni í málinu sagði hana hafa verið í miklu uppnámi, grátandi og blóðuga. 

Af atlögunni hlaut konan mar og blæðingu við hvirfil og aftan á hnakka, sprungur á efri og neðri vör, bólgur og eymsli yfir nefi, eymsli undir vinstri kinnboga og yfir hægri kjálkalið, punktblæðingar á baki, mar við vinstra herðablað, á hægri síðu og framan á vinstri sköflungi og eymsli yfir vinstri ökkla og á hægra læri.

Brot mannsins telst varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og krefst konan að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Konan fer fram á 800 þúsund í bætur auk vaxta.

Að loknum vitnaleiðslum var aðalmeðferð málsins frestað og verður framhaldið síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×