Erlent

Neita að verja Abdeslam

Samúel Karl Ólason skrifar
Salah Abdeslam og Frank Berton, annar lögmanna.
Salah Abdeslam og Frank Berton, annar lögmanna. Vísir/AFP
Lögmenn Salah Abdeslam, eins af árásarmönnunum í París í nóvember í fyrra, eru hættir að verja hann. Lögmennirnir tveir segja að Abdeslam neiti að svara spurningum þeirra og hann vinni ekki með þeim.

„Við höldum að muni ekkert tala og hann muni beita rétti sínum til að þaga,“ hefur AFP fréttaveitan eftir Frank Berton, öðrum lögmanninum. „Með tilliti til þeirrar stöðu, hvað getum við gert? Við sögðum frá upphafi að við myndum hætta ef hann vildi ekki tala við okkur.“

Abdeslam er, eins og áður segir, eini eftirlifandi vígamaðurinn sem tók þátt í árásunum þar sem 130 létu lífið. Hann var handsamaður í Belgíu í mars og fluttur til Frakklands í apríl. Síðan þá hefur hann neitað að svara spurningum. Hann hefur einnig sent bréf til yfirvalda þar sem hann segist ekki vilja hjálp lögmanna.

Hlutverk Abdeslam í árásunum er ekki ljóst að fullu, en vitað er að hann keyrði þremur mönnum sem sprengdu sig í loft upp við Stade de France. Því næst keyrði hann um götur Parísar áður en hann flúði til Belgíu. Hann sagði rannsakendum að hann hefði einnig ætlað að sprengja sig í loft upp, en hafi snúist hugur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×