Körfubolti

Neita að snúa aftur til Úkraínu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Sex leikmenn úkraínska liðsins Shakhtar Donetsk urðu eftir í Frakklandi um helgina og neita að snúa aftur til Úkraínu vegna átakanna þar í landi.

Donetsk lýtur sem stendur stjórn rússneskra aðskilnaðarsinna en úkraínski herinn hefur unnið að því að endurheimta borgina.

Leikmennirnir sem um ræðir eru Alex Teixeira, Fred, Dentinho, Douglas Costa, Facundo Ferreyra og Ismaily en allir eru Brasilíumenn nema Ferreyra, sem er frá Argentínu.

Alls eru tólf Brasilíumenn á mála hjá Shakhtar Donetsk en liðið mætti um helgina franska liðinu Lille í æfingaleik.

„Leikmennirnir eru með samninga sem þeir verða að fylgja. Ef þeir koma ekki munu þeir líða fyrir það,“ sagði Rinat Akhmetov, forseti félagsins. „Það er ekkert að óttast.“

Tímabilið í Úkraínu hefst um helgina en Shakhtar er óheimilt að spila á heimavelli sínum vegna átakanna þar í landi. Enn er óákveðið hvar liðið muni spila sína leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×