Innlent

Neita að mæta í skólann þar til umsókn þeirra er samþykkt

Bjarki Ármannsson skrifar
Arslanovska-fjölskyldan frá Makedóníu.
Arslanovska-fjölskyldan frá Makedóníu. Vísir/Vilhelm
Fimm systkini úr fjölskyldu hælisleitenda í Reykjanesbæ hafa undanfarna daga ekki mætt í skólann og hyggjast ekki gera það fyrr en þau fá jákvætt svar um dvalarleyfi hér á landi.

Fréttastofa hefur áður fjallað um Arslanovska-fjölskylduna frá Makedóníu, sem hefur dvalið á Íslandi undanfarna mánuði. Hinn fjórtán ára Dennis átti ásamt systkinum sínum fjórum erfitt með að komast að í skóla til að byrja með en þau hafa setið heima síðustu þrjá skóladaga.

Í samtali við Vísi nefnir Dennis tvær ástæður fyrir því að börnin fimm hafa ekki mætt til skóla; umsókn þeirra um dvalarleyfi hafi verið hafnað og tólf ára systir hans hafi ekki verið bólusett með öðrum börnum úr árgangi hennar.

Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri Akurskóla í Reykjanesbæ, segir síðarnefnda atriðið þó misskilning.

„Við vorum bara ekki með nein sprautukort og hjúkrunarkonan hérna vissi ekkert hvað hún hafði fengið áður,“ segir Sigurbjörg. „Hún gat ekkert sprautað hana út af því. Þetta snýst ekkert um það að hún mætti ekki fá þessa bólusetningu.“

Sigurbjörg segist hafa haft samband við þjónustuaðila fjölskyldunnar hjá Reykjanesbæ til að leita svara. Dennis segir sjálfur að þau systkinin muni mæta til skóla á ný fái þau umsókn sína samþykkta. 

Skólaslit í Akurskóla verða þann 6. júní næstkomandi.


Tengdar fréttir

Börnin bíða eftir svörum

Fimm makedónsk systkini með stöðu hælisleitenda hafa ekki hafið skólagöngu sína og fá engin svör um hvenær þeim stendur það til boða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×