Innlent

Neðri-Dalur við Geysissvæðið óseldur

Haraldur Guðmundsson skrifar
Neðri-Dalur er með Geysissvæðið nánast í bakgarðinum hjá sér.
Neðri-Dalur er með Geysissvæðið nánast í bakgarðinum hjá sér. Mynd/Stakfell
Jörðin Neðri-Dalur í Biskupstungum er enn óseld en hún er 1.200 hektarar að stærð og sú næsta við Geysissvæðið í Haukadal. Þetta staðfestir Þorlákur Ómar Einarsson, framkvæmdastjóri fasteignasölunnar Stakfells, og segir engar frekari viðræður hafa átt sér stað við kínverska fjárfesta sem lýstu síðasta sumar yfir áhuga á að skoða kaup á jörðinni.

„Það hefur ekkert gerst enn sem komið er. Það má segja að þetta sé á sama stað og í ágúst en þetta tekur allt langan tíma og mælt í mörgum mánuðum frekar en vikum,“ segir Þorlákur.

Fréttablaðið greindi í lok ágúst síðastliðins frá áhuga kínverskra fjárfesta á jörðinni. Kom þá fram að ásett verð væri 1,2 milljarðar króna og að fjárfestarnir horfðu helst til staðsetningar jarðarinnar og þess að þar er heitt vatn. Fasteignasali hjá Stakfelli sagði þá að Kínverjarnir vildu byggja upp ferðamannatengda starfsemi en fasteignasalan hafði þá útbúið sölukynningu á íslensku og ensku.

Átta bræður eiga jörðina og ætla þeir að taka smá skika fyrir sumarbústaði sína. Þorlákur segir ekki koma til greina að lækka verðið.  

„Nei, ég gef ekkert eftir. Ekki gramm. Enda er þetta perla sem mun seljast að lokum og við þurfum bara einn kaupanda og hann kemur,“ segir Þorlákur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×