Erlent

NBA leikmaður skotinn til bana

Samúel Karl Ólason skrifar
Bryce Dejean-Jones, leikmaður New Orleans Pelicans.
Bryce Dejean-Jones, leikmaður New Orleans Pelicans. Vísir/GETTY
Bryce Dejean-Jones, leikmaður New Orleans Pelicans, var skotinn til bana í gær. Hann var skotinn þegar hann braust inn í íbúð í Dallas í Texas og lést á sjúkrahúsi. Íbúi íbúðarinnar segir að hann hafi vaknað við að einhver hefði sparkað upp útidyrnar hjá sér klukkan 03:20 í gærmorgun. Hann hafi tekið upp skammbyssu sína og kallað fram á gang, en ekki fengið svar.

Þegar Dejean-Jones sparkaði í svefnherbergishurð mannsins skaut hann í gegnum hurðina og hæfði Dejean-Jones í magann. Samkvæmt ESPN er talið að Dejean-Jones hafi ætlað sér að brjótast inn í íbúð kærustu sinnar, en farið íbúðavillt. Þegar lögregluþjónar komu á vettvang lá hinn 23 ára gamli Dejean-Jones fyrir utan svefnherbergishurð mannsins.

Umboðsmaður Dejean-Jones segir að hann hafi verið í Dallas að hitta kærustu sína og farið í eins árs afmæli dóttur sinnar. Samkvæmt heimildum ESPN rifust þau um kvöldið og virðist sem hann hafi haldið að hún hafi læst sig úti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×