Körfubolti

NBA í nótt: Töframennirnir í kjörstöðu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Trevor Brooker og Taj Gibson í baráttunni í nótt.
Trevor Brooker og Taj Gibson í baráttunni í nótt. Vísir/AP
Washington Wizards er komið í 2-0 forystu gegn Chicaco Bulls í úrslitakeppni NBA-deildarinnar og á næstu tvo leiki á heimavelli.

Washington vann í Chicago í nótt, 101-99, í framlengdum leik þrátt fyrir að hafa verið mest tíu stigum undir í fjórða leikhluta.

Bradley Beal var öflugur í endurkomunni og fékk tækifæri til að tryggja Washington sigur í lok venjulegs leiktíma en skot hans geigaði. Hann skoraði 26 stig í leiknum.

Washington reyndist svo sterkara í framlengingunni. Nene skilaði mikilvægum stigum en alls skoraði sautján í leiknum, þar af sex í framlengingunni.

DJ Augustin var stigahæstur hjá Chicago með 25 stig en Taj Gibson skoraði 22 stig og var með tíu fráköst.



Toronto vann Brooklyn, 100-95, og jafnaði þar með metin í rimmunni í 1-1. Næstu tveir leikir fara fram í Brooklyn.

DeMar DeRozan skoraði 30 stig fyrir Toronto og Jonas Valanciunas var með fimmtán stig og fjórtán fráköst.

Joe Johnson skoraði átján stig fyrir Brooklyn sem var í forystu í upphafi fjórða leikhluta. En gestirnir lentu í villuvandræðum auk þess sem Paul Pierce átti slæman leik. Hann nýtti aðeins tvö af ellefu skotum sínum í leiknum og klikkaði á öllum sex þriggja stiga tilraunum sínum. Hann endaði með sjö stig.

Indiana vann Atlanta, 101-85, og er staðan í rimmunni einnig jöfn, 1-1. Paul George var með 27 stig, tíu fráköst og sex stoðsendingar fyrir Indiana og varamaðurinn Luis Scola 20 stig.

Atlanta vann fyrsta leik liðanna nokkuð óvænt en á nú næstu tvo leiki á heimavelli. Paul Millsap skoraði nítján stig fyrir liðið í nótt.

Úrslit næturinnar:

Indiana - Atlanta 101-85 (1-1)

Toronto - Brooklyn 100-95 (1-1)

Chicago - Washington 99-101 (0-2)



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×