Körfubolti

NBA: Toronto Raptors nú búið að vinna átta leiki í röð | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyle Lowry.
Kyle Lowry. Vísir/Getty
Toronto Raptors er á miklu skriði í NBA-deildinni í körfubolta en kanadíska liðið vann sinn áttunda sigur í röð í nótt. Brooklyn Nets stoppaði aftur á móti sjö leikja sigurgöngu Oklahoma City Thunder og James Harden var með þrennu þegar Houston Rockets vann Dallas Mavericks.

Kyle Lowry skoraði 21 stig og Litháinn Jonas Valanciunas var með 20 stig þegar Toronto Raptors vann 112-94 heimasigur á Los Angeles Clippers. DeMar DeRozan og Terrence Ross bættu báðir við 18 stigum í þessum áttunda sigri Toronto-liðsins í röð. Chris Paul var með 23 stig og 11 stoðsendingar hjá Los Angeles Clippers og DeAndre Jordan var með 15 stig og 13 fráköst.

Þetta er lengsta sigurganga Toronto Raptors á tímabilinu og sú önnur lengsta í sögu félagsins en Toronto Raptors vann níu leiki í röð með Vince Carter í fararbroddi tímabilið 2001-02.

Brook Lopez var með 31 stig og 10 fráköst þegar Brooklyn Nets vann Oklahoma City Thunder 116-106 en Thunder-liðið var fyrir leikinn búið að vinna sjö leiki í röð. Kevin Durant (32 stig, 10 fráköst, 7 stoðsendingar) og Russell Westbrook (27 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar) skiluðu báðir flottum tölum en það var ekki nóg. Miðherjinn Steven Adams gat ekki verið með og Brook Lopez nýtti sér það.

Jae Crowder og Isaiah Thomas skoruðu báðir 20 stig þegar Boston Celtics vannn 112-92 sigur á Philadelphia 76ers. Avery Bradley var með 19 stig og Marcus Smart skoraði 16 stig í fimmta sigri Boston í síðustu sjö leikjum.

James Harden var með þrennu þegar Houston Rockets vann 115-104 heimasigur á Dallas Mavericks. Harden var með 23 stig, 15 fráköst og 10 stoðsendingar í leiknum en Trevor Ariza var stigahæstur í Houston-liðinu með 29 stig. Chandler Parsons skoraði mest fyrir Dallas eða 31 stig en liðið tapaði þarna öðrum leiknum sínum í röð.

Öll úrslit úr leikjum NBA-deildarinnar í nótt:

Houston Rockets - Dallas Mavericks 115-104

Toronto Raptors - Los Angeles Clippers 112-94

Philadelphia 76ers - Boston Celtics 92-112

Brooklyn Nets - Oklahoma City Thunder 116-106

Staðan í NBA-deildinni

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×