Körfubolti

NBA: LeBron James með þrennu í fyrsta leik en Golden State skíttapaði | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
NBA-meistarar Cleveland Cavaliers byrjuðu titilvörn sína vel í nótt en silfurlið Golden State Warriors steinlá aftur á móti í fyrsta leik sínum með Kevin Durant.

Kawhi Leonard setti nýtt persónulegt met með því að skora 35 stig í 129-100 stórsigri San Antonio Spurs á Golden State Warriors. Golden State liðið vann 24 fyrstu leiki sína á síðasta tímabili en fékk nú stóran skell á heimavelli.

Leonard, sem var kominn með 31 stig eftir fyrstu þrjá leikhlutana, var frábær í leiknum en LaMarcus Aldridge var engu síðri með 26 stig og 14 fráköst.

Kevin Durant skoraði 27 stig og tók 10 fráköst í fyrsta deildarleik sínum með Golden State Warriors en Stephen Curry var með 26 stig. Curry hitti þó aðeins úr 3 af 10 þriggja stiga skotum sínum.

Draymond Green var með 18 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar en Klay Thompson skoraði aðeins 11 stig og klikkaði af 8 af 13 skotum sínum.

LeBron James bauð upp á þrennu í kjölfarið á því að hann fékk NBA-hringinn sinn með félögum sínum í meistaraliði Cleveland Cavaliers. James var með 19 stig, 11 fráköst og 14 stoðsendingar í 117-88 stórsigri á New York Knicks.

Hinir stjórnuleikmenn Cleveland-liðsins voru einnig að spila vel því Kyrie Irving skoraði 29 stig og Kevin Love bætti við 23 stigum og 12 fráköstum. Carmelo Anthony var stighæstur hjá New York með 19 stig, Derrick Rose skoraði 17 stig og Kristaps Porzingis var með 16 stig.

Damian Lillard var með 39 stig þegar Portland Trail Blazers vann 113-104 sigur á Utah Jazz. CJ McCollum bætti við 29 stigum en Joe Johnson var stigahæstur hjá Utah Jazz liðinu með 29 stig.

Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

Cleveland Cavaliers - New York Knicks 117-88

Portland Trail Blazers - Utah Jazz 113-104

Golden State Warriors - San Antonio Spurs 100-129

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×