Körfubolti

NBA: Irving og James með 70 stig í sjöunda sigri Cleveland í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Kyrie Irving voru með 70 stig saman í nótt.
LeBron James og Kyrie Irving voru með 70 stig saman í nótt. Vísir/Getty
Cleveland Cavaliers hélt sigurgöngu sinni áfram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt og Chicago Bulls sýndi styrk sinn með því að enda 19 leikja sigurgöngu Golden State Warroirs á heimavelli. Memphis Grizzlies er aftur að komast í gang.

Kyrie Irving skoraði 38 stig og LeBron James var með 32 stig þegar Cleveland Cavaliers vann 103-95 útisigur á Detroit Pistons en Cleveland tapaði með 23 stig á heimavelli á móti Pistons-liðinu í síðasta mánuði.

Þetta var sjöundi sigurleikur Cleveland í röð en liðið hefur endurfæðst eftir að LeBron James kom til baka eftir meiðsli. Detroit Pistons hefur verið að spila mjög vel en er að jafna sig á því að leikstjórnandinn Brandon Jennings sleit hásin.

 

Derrick Rose tryggði Chicago Bulls 113-111 sigur á Golden State Warroirs þegar sjö sekúndur voru eftir af framlengingu en með því endaði Bulls-liðið 19 leikja sigurgöngu Golden State á heimavelli.

Derrick Rose skoraði 30 stig í leiknum en þurfti að taka 33 skot auk þess að tapa 11 boltum. Draymond Green hjá Golden State kom leiknum í framlengingu þegar hann jafnaði 1,4 sekúndum fyrir leikslok.

Zach Randolph var með 22 stig og 10 fráköst þegar Memphis Grizzlies vann 109-90 sigur á Dallas Mavericks. Þetta var fjórði sigur Memphis í röð og jafnframt sá áttundi í síðustu níu leikjum liðsins. Chandler Parsons og Monta Ellis skoruðu báðir 19 stig fyrir Dallas sem tapaði sínum þriðja leik í röð.

Þetta tap Dallas-liðsins þýðir að lærisveinum Rick Carlisle mistókst í þriðja sinn í röð að færa honum hans 600. sigur í NBA-deildinni.

Öll úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

Indiana Pacers Toronto Raptors 91-104

Detroit Pistons Cleveland Cavaliers 95-103

Miami Heat Milwaukee Bucks 103-109

Dallas Mavericks Memphis Grizzlies 90-109

Golden State Warriors Chicago Bulls 111-113 (framlenging)

LA Lakers Washington Wizards 92-98

Staðan í NBA-deildinni

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×