Körfubolti

Naumt tap fyrir Grikkjum í undanúrslitum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska liðið hefur staðið sig með prýði á EM.
Íslenska liðið hefur staðið sig með prýði á EM. mynd/kkí
Stelpurnar í íslenska U-18 ára landsliðinu í körfubolta töpuðu með fjögurra stiga mun, 65-61, fyrir Grikklandi í undanúrslitum B-deildar Evrópumótsins í kvöld.

Ísland mætir Bosníu í leiknum um 3. sætið á morgun.

Leikurinn í kvöld var jafn og spennandi og úrslitin réðust alveg undir lokin.

Thelma Dís Ágústsdóttir jafnaði metin í 58-58 þegar rúm mínúta var eftir. Íslenska liðið fékk í kjölfarið möguleika til að komast yfir en tapaði boltanum sem reyndist dýrkeypt.

Elena Tsineke skoraði fyrir Grikki þegar 17 sekúndur voru eftir og fékk víti að auki sem hún setti niður. Staðan því 61-58.

Íslenska liðið tapaði boltanum aftur í næstu sókn sinni og neyddist til því að brjóta. Tsineke setti bæði vítin ofan í og kom Grikkjum fimm stigum yfir, 63-58.

Ísland tók leikhlé og að því loknu setti Björk Gunnarsdóttir niður þrist og hleypti mikilli spennu í leikinn. Stelpurnar sendu Grikki aftur á vítalínuna en Stavriani Vintsilaiou nýtti bæði vítin sín og kláraði leikinn. Lokatölur 65-61, Grikklandi í vil.

Sylvía Rán Hálfdanardóttir átti frábæran leik í liði Íslands og skoraði 20 stig og tók 14 fráköst. Dýrfinna Arnardóttir skoraði 14 stig og Telma Dís átti sömuleiðis skínandi leik; skoraði 11 stig, tók sjö fráköst, gaf fimm stoðsendingar og nýtti fimm af átta skotum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×