Erlent

Nauðgari kennir fórnarlambinu um

Samúel Karl Ólason skrifar
Nauðgunin í strætisvagninum vakti hörð viðbrögð og voru mótmæli haldin víða um Indland
Nauðgunin í strætisvagninum vakti hörð viðbrögð og voru mótmæli haldin víða um Indland Vísir/AFP
Mukesh Sing, sem hefur verið dæmdur til dauða fyrir þátttöku sína í grimmilegri hópnauðgun á 23 ára konu í Indlandi 2012, segir konur bera ábyrgð á nauðgunum. Þetta kemur fram í viðtali sem BBC tók við hann í fangelsi.

Viðtalið við Mukesh Singh er hluti af heimildarmyndinni Dóttir Indlands sem BBC mun sýna um næstu helgi.

Árásin leiddi til gífurlegra mótmæla í Indlandi og víðar í heiminum, þar sem farið var fram á breytt viðhorf gagnvart konum í Indlandi. Mennirnir voru allir dæmdir til dauða.

Hinni 23 ára gömlu Jyoti Singh var nauðgað margoft og var hún barin með járnrörum, áður en henni og vini hennar var kastað úr strætisvagni á ferð. Hún lét lífið 13 dögum síðar.

Þann 16. desember var Joyti á leið heim úr kvikmyndahúsi ásamt vini sínum, þegar fimm menn, ásamt 17 ára dreng, á strætisvagni buðu þeim far heim. Vinur Joyti var barinn illilega og mennirnir drógu hana aftast í vagninn þar sem þeir nauðguðu henni og börðu hana grimmilega.

Fjórir af fimm dæmdir til dauða

Mukesh Sing hefur viðurkennt að hafa keyrt strætisvagninn, en segist ekki hafa nauðgað Joyti. Hann  og hinir mennirnir fjórir voru dæmdir til dauða fyrir árásina. Mál fjögurra þeirra eru nú í áfrýjunarferli, en einn af þeim fannst látinn í klefa sínum í mars 2013. Hann var bróðir Mukesh.

Drengurinn var dæmdur fyrir nauðgun og morð og var gert að sitja í þrjú ár í endurhæfingarvistun.

Mukesh segir í viðtalinu að konur beri meiri ábyrgð á nauðgunum en karlmenn. Þær eigi ekki að vera á ferðinni seint á kvöldin, né eigi þær að sækja skemmtistaði eða vera í „röngum“ fötum.

„Sæmandi stúlka er ekki á ferðinni klukkan níu á kvöldin. Stelpan ber mun meiri ábyrgð á nauðgun en strákurinn. Strákur og stelpur eru ekki jöfn. Heimilisstörf eru fyrir stelpur, þær eiga ekki að sækja diskó og bari á kvöldin og gera ranga hluti, vera í röngum fötum. Um 20 prósent stúlkna eru góðar.“

Segir árásina hafa verið slys

Mukesh vísar ávallt til nauðgunarinnar sem slyss í viðtalinu en hann segir nauðgunina og barsmíðarnar hafa verið til að kenna þeim Joyti og vini hennar lexíu. Að þau hefðu ekki átt að vera úti svona seint. Þá gagnrýnir hann Joyti fyrir að hafa veitt þeim mótspyrnu.

„Hún hefði ekki átt að veita mótþróa þegar það var verið að nauðga henni. Hún hefði bara átt að vera kyrr og leyfa þessu að gerast. Þá hefðu þeir hleypt henni út eftir á og bara barið strákinn.“

Hluta af viðtalinu við Mukesh má sjá hér á vef BBC.

Hann heldur því einnig fram að verði hann og samfangar hans teknir af lífi muni það koma niður á fórnarlömbum nauðgunna í Indlandi.

„Núna, þegar þeir nauðga, munu þeir ekki skilja stúlkurnar eftir eins og við gerðum. Þeir munu drepa þær. Áður hefðu þeir nauðgað þeim og sagt: Skiljið hana eftir, hún mun ekki segja frá þessu. Núna munu þeir og þá sérstaklega glæpamennirnir, bara drepa stelpurnar. Dauði.“


Tengdar fréttir

Indversku hrottarnir mættu í dómsal í morgun

Mennirnir fimm, sem grunaðir eru um að hafa nauðgað og misþyrmt tuttugu og þriggja ára konu um borð í strætisvagni í Nýju-Delí á Indlandi um miðjan síðasta mánuð, mættu nú á ellefta tímanum fyrir dómara í höfuðborginni.

Treysta ekki lögreglunni eftir hrottalega nauðgun

Hundruð kvenna í Delhi hafa síðastliðna daga sótt um byssuleyfi. Ástæðan er mikil umfjöllun um hrottalega nauðgun, þar sem sex karlmenn nauðguðu 23 ára gamalli konu og limlestu hana í síðasta mánuði. Breska blaðið Guardian segir að fréttirnar af þessum aukna byssuáhuga sýni hversu óöruggt fólk sé í þessari borg. Skortur á trausti gagnvart lögreglunni sé alger.

Sakfelldir fyrir hrottalega nauðgun

Fjórir menn eiga yfir sér dauðarefsingu á Indlandi. Þeir voru sakfelldir í morgun fyrir hópnauðgun í lok síðasta árs.

Blóð úr konunni fannst á fötum hrottanna

DNA-sýni sem fundust á fötum indversku mannanna fimm, sem eru í haldi lögreglu grunaðir um hrottafengna nauðgun og morð um borð í strætisvagni í síðasta mánuði, tengja þá við verknaðinn.

Kennir parinu að nokkru um árásina

Sex menn voru handteknir á sunnudag í Madya Pradesh á Indlandi, sakaðir um að hafa ráðist á par frá Sviss, bundið manninn við tré og nauðgað konunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×