Lífið

Nauðgað um verslunarmannahelgi: Hefði verið mjög erfitt að lesa strax um þetta í fjölmiðlum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Pálína varð fyrir nauðgun árið 2014.
Pálína varð fyrir nauðgun árið 2014. Vísir
„Það er mjög nauðsynlegt að opna þessa umræðu og skila skömminni þar sem hún á heima,“ segir Pálína Ósk Ómarsdóttir, en henni var nauðgað á Akureyri um verslunarmannahelgina árið 2014. Pálína mætti í Brennsluna á FM957 í morgun og opnaði sig um málið.

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum, hefur verið gangrýnd töluvert að undanförnu fyrir þá áætlanir að greina ekki opinberlega frá tilkynntum kynferðisbrotum á þjóðhátíð í ár. Páley hefur sagt að ákvörðunin sé tekin með hagsmuni þolenda að leiðarljósi.

„Þegar ég lendi í þessum atburði þá enda ég uppi á sjúkrahúsi ráðavillt og hrædd. Ég hafði þá ekki hugmynd um hvað gerðist og lögreglan kemur og bara allur dagurinn fer í ákveðið ferli þar sem ég er allan tímann upp á spítala. Lögreglan er að útskýra fyrir manni að það sé alls ekki eðlilegt að einhver sé að sofa hjá þér á meðan maður er dáin áfengisdauða.“ Pálína segir að lögreglan hafi hvatt hana til að leggja fram kæru.

Lögreglan stóð sig mjög vel

„Maður er á mjög viðkvæmum stað og ég fékk t.d. ekki að vita það fyrr en á sunnudeginum hvað í raun og veru gerðist. Allur dagurinn og allt í kringum þetta er bara erfitt. Maður er bara hræddur og ef ég hefði kannski séð frétt um nauðgun á Akureyri, þá hefði ég kannski getað bakkað út. Maðurinn var handtekinn strax daginn eftir og þá hafði ég farið í gengum gríðarlega langt og mikið ferli. Ég held að fólk geri sér almennt ekki alveg grein fyrir því hversu alvarlegt þetta er. Þetta er ekki bara nauðgun, þetta er svo miklu meira en það. Það tekur marga daga fyrir mann að meðtaka hvað gerðist,“ segir Pálína sem sá fyrst frétt um nauðgun á Akureyri á miðvikudeginum eftir verslunarmannahelgina. Þá hafi hún verið byrjuð að meðtaka atburðinn.

„Það er bara erfitt að lesa um svona í blöðunum. Foreldrar mínir vissu þetta og í raun öll fjölskyldan mín. Þegar svona frétt kemur í loftið þá er það mjög óþægilegt fyrir mann. Það er einnig mjög erfitt fyrir fjölskyldumeðlimi að lesa svona.“

Pálína segir að lögreglan hafi staðið sig ótrúlega vel í málinu og staðið þétt við bakið á henni.

Vissi ekkert hvað hafði gerst

„Ég vissi fyrst ekkert hvað hafði gerst, nema ég vissi að maður sem ég vissi ekkert hver væri hefði sofið hjá mér. Lögreglumaðurinn sem var með mér er mestmegnis í svona málum og það skiptir alveg ótrúlega miklu máli,“ segir Pálína.

Hún vill meina að það sé mikilvægt að lögreglan fái frið og tíma til að vinna í svona málum.

„Lögreglan fór strax á staðinn og ræddi við vitni. Ég var svo heppin að það voru vitni í mínu tilfelli en lögreglan stóð sig ótrúlega vel. Hún þarf bara vinnufrið. Eins sorglegt og það er, þá komast bara ein af hverri tíu með sín mál alla leið í dómskerfinu. Þessi vegna skiptir allt ferlið mjög miklu máli og að lögreglan fá algjöran vinnufrið.“


Tengdar fréttir

Hunsar þöggunartilmæli lögreglustjóra

Lögreglan í Vestmannaeyjum mun ekki upplýsa um tilkynnt kynferðisbrot á Þjóðhátíð fyrr en nokkur tími er liðinn frá hinum meintu brotum. Lögreglustjórinn segir þetta auka líkur á góðri frásögn. Fagaðilar segja rétt að upplýsa um

Unnsteinn Manuel vill ekki stríð Eyjamanna og fólks úr miðbænum

Unnsteinn Manuel Stefánsson talar máli tónlistarmanna sem tóku þá ákvörðun síðastliðinn fimmtudag að hætta við að spila á Þjóðhátíð vegna afstöðu Páleyjar Borgþórsdóttur, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum, varðandi kynferðisbrot.

Stingum ekki höfðinu í sandinn

Þrjár Eyjakonur sem koma annars vegar að skipulagi Þjóðhátíðar í Eyjum og hins vegar að forvörnum eru sammála um að það þurfi að opna samtalið um kynferðisafbrot og senda skýrari skilaboð um að þau líðist ekki á Þjóðhátíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×