Skoðun

Náttúruminjasafn gegnt Arnarhóli

Björn B. Björnsson skrifar

Holan stóra við hlið Hörpu er tvær lóðir. Sú sem er nær höfninni verður hótel en hin, sem snýr að Arnarhóli, er í eigu Landsbankans. Bankinn hefur hug á að reisa þar aðalstöðvar sínar, en forsætisráðherra hefur staðið gegn þeim áformum.



Ég held að flestir Íslendingar séu sammála Sigmundi Davíð um að fráleitt sé að banki í almannaeigu eyði milljörðum króna í að reisa bankahöll í hjarta höfuðborgarinnar eftir það sem á undan er gengið.

Svo fjölmennur vinnustaður myndi líka auka á umferðar- og bílastæðavanda miðborgarinnar. Höfuðstöðvar Landsbankans má vel byggja fjær miðborginni og nær stórum umferðaræðum.



Vegna mótstöðu forsætisráðherra við byggingaráform bankans mun ekkert gerast í þessum hluta holunnar á næstunni – en á sama tíma verður byggt upp á öllum öðrum lóðum á svæðinu milli Hörpu og miðbæjarins. Bankinn virðist ætla að bíða þangað til tækifæri skapast til að koma áformum sínum í gegn.



Á sama tíma er eitt höfuðsafn þjóðarinnar, Náttúruminjasafn Íslands, geymt í kössum því ekkert safnhús er til. Til að bæta úr því ófremdarástandi hafa verið uppi hugmyndir um að búa til einhvers konar sýningu í Perlunni í samstarfi við fjárfesta. Ætlunin er að þeir fái tekjur sýningarinnar og þannig fjárfestingu sína til baka. Ekki er mikil reisn yfir þeim áformum, enda hefur Alþingi ekki fengist til að veita fé til verksins.



Þar sem Landsbankinn er í almannaeigu ættu stjórnvöld að geta komið því í kring að þessi lóð verði nýtt undir Náttúruminjasafn Íslands.



Myndarlegt safn á þessum fallega stað væri stórhuga lausn sem hæfði vel þeim sessi sem náttúra landsins á í hjörtum okkar allra – og sú tilfinning mun vaxa á næstu árum, áratugum og öldum.



Erlendir ferðamenn koma flestir til Íslands vegna náttúru landsins svo ekki er að efa að stórt og spennandi safn á þessum stað yrði gríðarlega fjölsótt og skilaði miklum tekjum.



Sjálfsagt er að fram fari alþjóðleg samkeppni um útlit jafn mikilvægrar byggingar svo safnið geti í framtíðinni orðið eitt af einkennum Reykjavíkur og stolt allra Íslendinga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×