Erlent

NATO stendur í ströngu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Á síðasta ári flugu herþotur NATO alls 400 sinnum til móts við flugvélar rússneska hersins.
Á síðasta ári flugu herþotur NATO alls 400 sinnum til móts við flugvélar rússneska hersins. VÍSIR/GETTY
Orrustuþotur úr loftrýmisgæslusveit Atlantshafsbandalagsins í Eystrasalts-ríkjunum hafa í síðustu viku þurft að fljúga 22 sinnum til móts við rússneskar herflugvélar. Í tvö skipti var um að ræða stærstu flugsveitir rússneska hersins sem flugsveitir bandalagsins hafa þurft að fylgja á eftir síðan aukin spenna á milli Rússa og NATO-ríkja hófst fyrir 18 mánuðum síðan.

Það sem af er ári hafa flugsveitir bandalagsins þurft að grípa til yfir 250 aðgerða vegna flugferða rússneska hersins yfir evrópskri lofthelgi og hefur loftrýmisgæslan í Eystrasaltsríkjunum séð um 120 af þessum aðgerðum. Hefur það leitt til þess að bandalagið hefur tvöfaldað stærð þeirra flugsveita sem sjá um loftrýmisgæsluna á því svæði.

Að sögn embættismanna hefur Atlantshafsbandalagið ekki þurt að grípa til jafnmargra aðgerða yfir sambærilegt tímabil gegn flugi rússneskra flugsveita síðan kalda stríðinu lauk.

„Á síðasta ári sáum við aukningu í aðgerðum Rússa í nálægð við landamæri Atlantshafsbandalagsins. Rússneskar herflugvélar fljúga oft með slökkt á ratsjárvara sínum, án þess að birta flugskýrslur og án þess að eiga í samskiptum við flugmálastjórnir.“

Flugmálastjórnir nota merki frá ratsjárvörum til þess að staðsetja flugvélar innan lofthelgi sinnar. Rússnesk hermálayfirvöld hafa gætt þess sérstaklega að fljúga ekki inn fyrir lofthelgi Atlantshafsbandalagsins en bandalagið telur að með þessum flugferðum séu Rússar að kanna viðbragðstíma hernaðarafla þess.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×