Erlent

NATO boðar til neyðarfundar vegna rússnesku herþotunnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá fundi ráðsins
Frá fundi ráðsins Vísir/afp

Norður-Atlantshafsráðið hefur boðað til neyðarfundar í dag í kjölfar gröndunar rússnesku Su-24 herþotunnar yfir Sýrlandi í morgun. Þetta fullyrðir blaðamaður Times á Twitter sinni síðu í dag.

Fundurinn er haldinn að frumkvæði Tyrkja sem vilja útskýra aðkomu sína að árásinni. Fundurinn mun fara fram í Brussel í dag klukkan 4 að íslenskum tíma.

Köldu blæs nú á milli rússneskra og tyrkneskra stjórnvalda og hafa rússneskir þingmenn látið hafa eftir sér að réttast væri að afturkalla sendiherra landsins í Tyrklandi.

Sjá einnig: Rússar líta árásina mjög alvarlegum augum

Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem NATO-ríki hefur skotið niður rússneska herþotu og uppi eru miklar vangaveltur um hvernig Atlantshafsbandalagið skuli bregðast við árásinni.

Fimmta grein Atlantshafssáttmálans, sem öll 28 aðildarríkin hafa skrifað undir, er nokkuð skýr hvað árás á NATO-ríki, þegna þeirra eða hersveitir varðar.  Þar segir:

Aðilar eru sammála um, að vopnuð árás á einn þeirra eða fleiri í Evrópu eða Norður-Ameríku skuli talin árás á þá alla; fyrir því eru þeir sammála um, ef slík vopnuð árás verður gerð, að þá muni hver þeirra í samræmi við rétt þann til eigin varnar og sameiginlegrar, sem viðurkenndur er í 51. grein sáttmála Sameinuðu bjóðanna, aðstoða aðila þann eða þá, sem á er ráðizt, með því að gera þegar í stað hver um sig og ásamt hinum aðilunum þær ráðstafanir, sem hann telur nauðsynlegar, og er þar með talin beiting vopnavalds, til þess að koma aftur á og varðveita öryggi Norður- Atlantshafssvæðisins. Tilkynna skal Öryggisráðinu tafarlaust allar þvílíkar vopnaðar árásir og allar ráðstafanir, sem gerðar eru vegna þeirra. Hætta skal slíkum ráðstöf-unum, þegar Öryggisráðið hefur gert þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess að koma á aftur og varðveita alþjóðafrið og öryggi.

Í greininni er þó ekki tiltekið hvernig skuli brugðist við árásum NATO-ríkis á aðila utan bandalagsins. Rússland er ekki aðila að Atlantshafsbandalaginu en tekur þátt í „Partnership for Peace“-samstarfinu sem komið var á milli aðildarríkja NATO og fyrrum Sovétríkjanna.

Að sögn talsmanns Vladimirs Pútín Rússlandsforseta líta Rússar árásina í dag mjög alvarlegum augum. „Mjög alvarlegt atvik,“ eru orðin sem talsmaðurinn notaði.

Hann bætti þó við að of snemmt væri að draga ályktanir að svo stöddu. Tveir voru um borð í vélinni og virðast þeir hafa náð að skjóta sér út í fallhlífum. Þó er talið nær öruggt að annar mannanna sé látinn og hafa uppreisnarmenn í Sýrlandi birt myndskeið af því sem virðist vera lík mannsins.

„Það er ómögulegt að segja nokkuð áður en allar upplýsingar liggja fyrir,“ sagði talsmaðurinn Dmitry Peskov í samtali við þarlenda fjölmiðla í morgun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×