Innlent

Nánast kraftaverk að selskópurinn Dilla sé á lífi

Birgir Olgeirsson skrifar
Selskópurinn Dilla gleður gesti í dýragarðinum Slakka en það er nánast kraftaverk að hún sé á lífi. Hún varð viðskila við móður sína snemma í vor og fannst neðst í Þjórsá.  Í Slakka er allt kapp lagt á að næra hana Dillu vel svo hún geti lifað af. Hún þyngist vel, er orðin ellefu kíló og fær sérstakan fiskisjeik á hverjum degi sem er haganlega gerður úr feitum fiski, ærmjólk og þorskalýsi.  Blönduna fær  hún í slöngu.

Það eru þau Stephanie Meier og John Harvey, starfsmenn garðsins sem hafa haldið lífi í Dillu síðustu vikurnar. Eftir matargjöfina finnst Dillu gott að sjúga hönd Stephanie, enda lítill kópur enn og þarf að fullnægja sogþörfinni.

Dillu verður sleppt í haust á svipuðum stað og hún fannst, eða í Þjórsá. Þau Stephanie og John eru í stöðugu sambandi við sérfræðinga um hvernig best er að standa að eldi hennar. Hún unir sér vel í dýragarðinum og kann vel við endurnar sem deila tjörninni með henni . Hænurnar sem eru á vappi í kring eru venjulega á ferð um allan garðinn en á meðan Dilla hefur dvalið ígarðinum hafa þær ekki vikið frá henni.

Fleiri dýr fá sérstaka væntumþykju í garðinum. 

Hæna sem heitir Raven hefur fengið sérstakt uppeldi hjá Stephanie, hún er tamin og eltir hana hvert sem hún fer og dvelur með innidýrunum vegna þess að hún var ekki samþykkt af hópnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×