Innlent

Námsgögn sliga heimili og stuðla að mismunun

Kolbrún Kristinsdóttir með örlítið magn af því sem hún þurfti að kaupa fyrir skólaárið.
Kolbrún Kristinsdóttir með örlítið magn af því sem hún þurfti að kaupa fyrir skólaárið. vísir/eyþór
Kolbrún Kristinsdóttir, sex barna móðir, þurfti að leggja út um 80 þúsund krónur í kostnað vegna námsgagna á síðasta ári. Hún er ein af þeim sem hafa skrifað undir undirskriftasöfnun Barnaheilla um gjaldfrjálsan grunnskóla. Samtökin hafa frá árinu 2015 þrýst á þingheim að virða ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að grunnskólamenntun sé gjaldfrjáls. Sáttmálinn var lögfestur á Íslandi 2013. Sums staðar á landinu er ástandið það slæmt að skólar hafa þurft að taka börn undir sinn verndarvæng og útvega þeim námsgögn.

„Þessi námsgögn voru sögð duga fyrir árið en yfirleitt þarf að endurnýja eitthvað,“ segir Kolbrún. Inni í þessari tölu er ekki annar kostnaður eins og skólatöskur, pennaveski, leikfimiföt og annað sem fellur til á hverju ári. Oft þurfi að bæta við jafnvel um 10 þúsund krónum. „Mér finnst þessar vörur vera að hækka á milli ára. Þessi kostnaður rífur í pyngjuna því í ár voru margir dýrir hlutir eins og reiknivélar og heyrnartól,“ segir hún. Börnin hennar eru frá 6-16 ára en tvö eru ekki enn komin á skólaaldur.

Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, segir að markmiðið sé að afhenda menntamálaráðherra 10 þúsund undirskriftir en þegar þetta er skrifað hafa um 3.500 manns skrifað undir. Þannig sé hægt að þrýsta á stjórnvöld um að börn njóti jafnra tækifæra og upplifi ekki mismunun. „Það gefur augaleið að þar sem þröngt er í búi getur þessi þáttur komið börnum í erfiða stöðu,“ segir hún.

Öll börn eiga rétt á grunnmenntun án endurgjalds samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í 2. grein sáttmálans er jafnframt kveðið á um að ekki megi mismuna börnum sökum stöðu þeirra eða foreldra þeirra, svo sem vegna efnahags. „Við þekkjum kostnaðinn, bæði persónulega og í okkar vinnu þegar við erum að skoða fátækt á Íslandi. 

Ef það er þungt í búi fyrir þá eru námsgögnin þungur baggi fyrir heimili og ég tala nú ekki um ef það eru mörg börn á heimilinu, þá getur þetta stuðlað að mismunun. Þessu viljum við breyta.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×