Erlent

Nakið fólk slátraði rollu í Auschwitz

Samúel Karl Ólason skrifar
Hliðið fræga sem fólkið hlekkjaði sig við.
Hliðið fræga sem fólkið hlekkjaði sig við. Vísir/AFP
Fjórtán einstaklingar klæddu sig úr fötunum og slátruðu rollu í Auschwitz-Birkenau útrýmingarbúðunum í Póllandi. Að því loknu hlekkjaði fólkið, sem er á aldrinum 20 til 27 ára, sig við frægt hlið búðanna. Öll hafa þau verið handtekinn en þau virðast hafa tekið gjörninginn upp á myndband með dróna.

Framkvæmdastjóri safnsins sem nú er rekið í Auschwitz segist, skiljanlega, ekki hafa hugmynd um hver tilgangur fólksins hafi verið.

„Þetta er í fyrsta sinn sem eitthvað eins og þetta gerist í Auschwitz,“ segir Piotr Cywinski við AFP fréttaveituna.

Æðsti rabbíni Póllands, Michael Schudrich, segir gjörning fólksins ekki eiga rétt á sér. Sama hver skilboð þeirra eiga að vera.

„Að nota Auschwitz til að senda pólitísk skilaboð, eða jafnvel siðferðisleg skilaboð. Það á ekki að muna eftir Auzchwitz þannig.“ Hann sagði hverskonar gjörninga í búðunum gera lítið úr minningu þeirra sem dóu.

Talið er að um ein milljón gyðinga hafi verið teknir af lífi í útrýmingarbúðunum á milli 1940 og 1945. Um hundrað þúsund manns, sem ekki voru gyðingar, voru einnig tekin af lífi samkvæmt safninu.

Þá er talið að um 232 þúsund af fórnarlömbum Auschwitz hafi verið börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×