Innlent

Náið samstarf um leit og björgun við NATO

Heimir Már Pétursson skrifar
vísir/valli
Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins svarar því ekki beint hvort bandalagið sé til í að verða við óskum íslenskra stjórnvalda um þátttöku í rekstri alþjóðlegrar leitar og björgunarmiðstöðvar á Íslandi.

Ísland hefur þá sérstöðu innan Atlantshafsbandalagsins að vera ekki með eigin her og engin föst viðvera NATO herliðs hefur verið hér frá því bandaríski herinn fór. Íslensk stjórnvöld hafa rætt það við önnur NATO ríki að hér yrði starfrækt alþjóðleg björgunar- og leitarmiðstöð, styrkt með tækjum og fjármunum frá NATO.

Jens Stoltenberg minnir á að aðildarríki NATO hafi skipst á að vera með loftrýmisgæslu á Íslandi og sameiginleg varnarstefna bandalagsins nái til Íslands.

„Allir fyrir einn og einn fyrir alla er grundvallarstefna NATO og hún nær einnig til Íslands,“ segir Stoltenberg. Hann vill hins vegar ekki svara því beint hvort bandalagið væri tilbúið í að koma að rekstri alþjóðlegrar leitar- og björgunarmiðstöðvar á Íslandi en ítrekar að samstarfið sé gott og í stöðugri þróun.

„Við eigum í mjög góðu samstarfi við Ísland varðandi öryggi okkar og munum vinna nánar saman í leitar- og björgunarmálum. En með hvaða hætti það verður mun tíminn leiða í ljós,“ segir Stoltenberg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×