Innlent

Næturgesturinn mátti ekki koma

Benedikt Bóas skrifar
Lögreglan þarf að taka á mörgum málum.
Lögreglan þarf að taka á mörgum málum. vísir/ernir
Næturvörður á hóteli í miðborginni óskaði eftir aðstoð lögreglunnar á laugardagsnótt eftir að maður sem gisti þar hafði veist að honum. Í tilkynningu frá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu segir að maðurinn hafi veist að næturverðinum eftir að hann meinaði honum að taka kvenkyns næturgest með sér inn á herbergi en slíkt er andstætt reglum hótelsins. Varð það niðurstaðan að karlmaðurinn og konan yfirgáfu hótelið og héldu út í nóttina.

Nokkrir íbúar höfuðborgarinnar skemmtu sér langt fram á nótt og tókst ekki alltaf jafn vel til samkvæmt tilkynningu lögreglunnar. Í gærmorgun, klukkan hálf níu var tilkynnt um mikinn samkvæmishávaða úr íbúð í Kópavogi. Var þar hópur gesta og var nokkrum gestum frekar heitt í hamsi. Var þeim vísað út úr íbúðinni þar sem talsvert ónæði var af þeim.

Þá þurfti leigubílstjóri aðstoð þar sem farþegi hafði hlaupið í burtu frá ógreiddum reikningi. Farþeginn skildi reyndar farsímann sinn eftir þannig að lögreglan hafði fljótlega uppi á viðkomandi. Var málið afgreitt í framhaldi af því.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×