Körfubolti

Næstum því tvöfaldaði stigaskor vetrarins í einum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Davíð Ásgeirsson.
Davíð Ásgeirsson. Mynd/Úr einkasafni
Skallagrímsmenn unnu í gærkvöldi sinni fyrsta leik í Dominos-deild karla í körfubolta þegar liðið vann 94-85 sigur á Stjörnunni í Fjósinu í Borgarnesi en Borgnesingar urðu síðasta liðið til að vinna í deildinni.

Davíð Ásgeirsson, 21 árs bakvörður, átti frábæran leik í gær en hann var stigahæstur í Skallagrímsliðinu með 23 stig. Davíð hitti úr 6 af 9 skotum sínum utan af velli, hitti úr 4 af 6 fyrir utan þriggja stiga línuna og setti niður öll sjö vítin sín.

Davíð var "aðeins" búinn að skora samtals 28 stig í fyrstu fimm leikjum vetrarins og "bara" samtals tvær þriggja stiga körfur. Hann næstum því tvöfaldaði því stigaskor sitt í vetur í þessum eina leik og það munaði svo mikið um það.

Davíð skoraði meðal annars tvær risastórar körfur á lokakafla leiksins sem öðru fremur kæfðu endurkomu Stjörnumanna á lokasekúndum leiksins. Þriggja stiga karfa hans kom liðinu í 89-82 og svo setti hann tveggja stiga körfu í næstu sókn eftir að Stjörnumenn höfðu skellt niður þrist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×