Innlent

Næstum þriðji hver fangi vill ekki vinna

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður á Litla-Hrauni og Sogni.
Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður á Litla-Hrauni og Sogni. vísir/stefán
Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður á Litla-Hrauni og Sogni, segir að vinnuframboð fyrir fanga sé nokkuð gott í báðum fangelsunum. Af 69 föngum sem dvelja á Litla-Hrauni eru 19 sem vilja ekki vinna af ýmsum ástæðum.

Helstu verkefni sem fangar sinna á Litla-Hrauni eru meðal annars bílnúmeraframleiðsla, þvottahús, öskjugerð, vegstikuviðgerðir, bílaþrif, þrif á sameignum, trésmíðaverkefni, endurvinnsluverkefni, umhirða lóðar og húsa, létt viðhaldsverkefni, afgreiðslustörf í verslun og fleira. Þegar Fréttablaðið hafði samband hafði enginn af þessum 19 óskað eftir vinnu.

„Hægt væri að finna störf handa mörgum þeirra ef þeir kærðu sig um það,“ segir Halldór.

Á Sogni eru nú 20 fangar og helmingurinn er í vinnu og sex í skóla. Á degi sem Halldór valdi af handahófi í september var einn fangi óvinnufær.

„Þrír höfðu verið í vinnu eða skóla og næg verkefni til staðar en voru ýmist að búa sig undir að yfirgefa fangelsið eða gátu ekki unnið þennan tiltekna dag af öðrum ástæðum.

Í haust hefur frekar verið vandamál á Sogni að geta ekki sinnt öllum verkefnum sem þarf að sinna,“ segir hann. Helstu verkefni fanga á Sogni eru útseld vinna við endurvinnslustörf, garðyrkjustörf, ljósmynda­skönnum, umhirða hænsnfugla og fiskeldis, umhirða lóðar og húsa og fleiri tímabundin verkefni.

„Þrátt fyrir þetta erum við alltaf að leita nýrra verkefna og viljum hafa þau sem fjölbreyttust svo þau hæfi líka þeim sem hafa minni starfsgetu. Það stendur til að bæta úr því og stefnan er sú að vinnustöðum fjölgi strax á næstu mánuðum.

Svo er draumurinn að geta byggt upp fullnægjandi aðstöðu til verknámskennslu í fangelsinu en það væri æskilegt að geta virkjað fleiri til náms, líka þá sem vilja ekki bóknámið.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×