Fótbolti

Næstmarkahæst í Meistaradeild

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara í leik með Wolfsburg.
Sara í leik með Wolfsburg. vísir/getty
Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Wolfsburg eru einum leik frá því að komast í úrslit Meistaradeildar Evrópu. Þýsku meistararnir gerðu góða ferð til Lundúna í gær og unnu 1-3 sigur á Chelsea í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Chelsea komst yfir eftir aðeins þrjár mínútur en Sara jafnaði metin á 18. mínútu. Hún skallaði þá fyrirgjöf Löru Dickenmann í netið. Tveimur mínútum fyrir hálfleik komst Wolfsburg yfir með sjálfsmarki og um miðjan seinni hálfleik skoraði Dickenmann svo þriðja mark þýska liðsins.

Sara hefur spilað einkar vel með Wolfsburg í Meistaradeildinni í vetur og skorað grimmt. Mörkin eru orðin sex í aðeins sjö leikjum.

Ef mörkin úr undankeppninni eru ekki tekin með er Sara næstmarkahæst í Meistaradeildinniw á þessu tímabili ásamt samherja sínum hjá Wolfsburg, Pernille Harder. Aðeins Ada Hederberg hjá Evrópumeisturum Lyon hefur skorað meira, eða 14 mörk. Lyon gerði markalaust jafntefli við Manchester City í fyrri leik liðanna í hinni undanúrslitarimmunni.

Wolfsburg ruddi Atlético Madrid, Fiorentina og Slavia Prag úr vegi á leið sinni í undanúrslitin. Wolfsburg vann fyrri leikinn gegn Atlético Madrid í 32-liða úrslitunum 0-3 og þann seinni 12-2 þar sem Sara skoraði eitt mark.

Landsliðsfyrirliðinn skoraði svo tvívegis í 0-4 sigri Wolfsburg á Fiorentina í fyrri leiknum í 16-liða úrslitum og eitt í 3-3 jafnteflinu í seinni leiknum.

Í 8-liða úrslitunum mætti Wolfsburg Slavia Prag, sem Sandra Marwwía Jessen leikur með. Wolfsburg vann fyrri leikinn með fimm mörkum gegn engu og skoraði Sara eitt marka þýska liðsins. Seinni leiknum lyktaði svo með 1-1 jafntefli.

Sara hefur sem áður sagði leikið alla sjö leiki Wolfsburg í Meistaradeildinni og skorað í fimm þeirra.

Þetta er besta tímabil Söru í Meistaradeildinni hvað markaskorun varðar. Hún hafði áður mest skorað fimm mörk á einu tímabili. Það var tímabilið 2011-12 þegar Sara lék með sænska liðinu Rosengård.

Sara hefur alls skorað 17 mörk í Meistaradeildinni með Wolfsburg og Rosengård. Þá gerði hún þrjú mörk í undankeppni Meistaradeildarinnar tímabilið 2010-11 þegar hún lék með Breiðabliki.

Næsta sunnudag fær Wolfsburg Chelsea í heimsókn í seinni leiknum í undanúrslitunum. Þýska liðið er með öll tromp á hendi sér en gestirnir frá Englandi þurfa að vinna þriggja marka sigur til að snúa dæminu sér í vil.

Það er því ansi líklegt að Íslendingar munum eiga fulltrúa í úrslitaleik Meistaradeildarinnar sem fer fram á heimavelli Dynamo Kiev í Úkraínu fimmtudaginn 24. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×