Enski boltinn

Næsti Antonio Cabrini á leið til Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matteo Darmian.
Matteo Darmian. Vísir/Getty
Manchester United er búið að ná samkomulagi um kaup á ítalska landsliðsbakverðinum Matteo Darmian samkvæmt fréttum ítalskra fjölmiðla.

United borgar um tuttugu milljónir evra, tæplega þrjá milljarða íslenskra króna, fyrir Matteo Darmian sem er 25 ára gamall.

Matteo Darmian spilaði sína fyrstu leiki með AC Milan þegar hann var aðeins sautján ára gamall en náði ekki að vinna sér sæti í aðalliðinu og spilaði síðan með bæði Padova og Palermo áður en hann kom til Torino árið 2011.

Matteo Darmian hefur verið líkt við Antonio Cabrini, einn farsælasta ítalska bakvörð sögunnar sem varð meðal annars heimsmeistari með Ítölum árið 1982 og vann allar þrjá Evrópukeppninnar með Juventus.

Darmian getur spilað báðar bakvarðarstöðurnar þótt að hann vilji helst vera hægra megin. Hann hefur alla helstu kosti góðs bakvarðar og vill sjálfur komast í stærra lið, lið sem er að spila í Meistaradeildinni.

Matteo Darmian spilaði sína fyrstu landsleiki árið 2014 og var í HM-hópi Ítala á heimameistaramótinu í Brasilíu í fyrrasumar. Hann fékk meðal annars verðlaun fyrir að vera besti leikmaður ítalska landsliðsins árið 2014.

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur verið að leita að bakverði en Antonio Valencia spilaði mikið út úr stöðu í hægri bakvarðarstöðunni á síðustu leiktíð.

Dani Alves samdi aftur við Barcelona og þá leyfði Louis van Gaal Liverpool að taka Nathaniel Clyne en bakvörður Southampton vildi frekar fara til United en til Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×