Fótbolti

Næsta brekka reynst of brött fyrir Lars Lagerbäck

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lars Lagerbäck sést hér hugsi á blaðamannafundi Íslands í gær. Hann fær nú tækifæri til að komast lengra en nokkru sinni fyrr á sínum þjálfaraferli.
Lars Lagerbäck sést hér hugsi á blaðamannafundi Íslands í gær. Hann fær nú tækifæri til að komast lengra en nokkru sinni fyrr á sínum þjálfaraferli. Vísir/Vilhelm
Lars Lagerbäck hefur þrisvar í sex tilraunum komið liði upp úr riðli á Evrópumóti eða í heimsmeistarakeppni en hann hefur aldrei farið í gegnum fyrsta leik í útsláttarkeppni. Hann reynir nú í fjórða sinn.

Tveir dagar eru þar til íslenska landsliðið í fótbolta mætir því enska í 16 liða úrslitum á EM 2016. Strákarnir okkar eru aðeins þriðja liðið í sögunni sem tapar ekki leik í riðlakeppni EM í frumraun sinni og í verðlaun fékk liðið og íslenska þjóðin leik gegn stjörnunum úr ensku úrvalsdeildinni. Þetta verður fyrsti mótsleikur liðanna í sögunni.

Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands, er töluvert reyndari á stórmótum en allir aðrir í íslenska hópnum. Hann er á sínu sjöunda stórmóti en áður fór hann fimm sinnum á stórmót með Svíþjóð (HM 2002 og 2006 og EM 2002, 2004 og 2008) og með Nígeríu á HM 2010.

Í helming skiptanna sem hann fór á stórmót áður tókst Svíanum að koma sínu liði upp úr riðli. Það gerði hann á þremur stórmótum í röð með Svíþjóð frá 2002-2006, tvisvar á HM og einu sinni á EM. Hann kom Svíþjóð einu sinni upp úr riðli í þremur tilraunum á EM og er nú ásamt Heimi Hallgrímssyni búinn að koma Íslandi áfram í fyrstu tilraun.

Tvö grátleg töp

Árangur Lars Lagerbäck í útsláttarkeppni er ekki góður. Hann tapaði öllum þremur leikjunum með Svíþjóð í útsláttarkeppni og tveimur þeirra afar grátlega.

Á HM 2002 var Svíþjóð í gríðarlega sterkum riðli með Englandi, Argentínu og Nígeríu en gerði sér lítið fyrir og vann riðilinn. Sænska liðið var firnasterkt á þessum tíma en féll úr leik á gullmarki gegn spútnikliði Senegal, 2-1, í framlengdum leik í 16 liða úrslitum. Fjórum árum síðar á HM tapaði Svíþjóð nokkuð sannfærandi gegn gestgjöfum Þýskalands, 2-0.

Þar á milli kom Lars sænska liðinu í átta liða úrslit EM (16 liða mót) en tapaði fyrir Hollandi í vítaspyrnukeppni sem fór í bráðabana. Olof Mellberg reyndist skúrkurinn þar þegar hann brenndi af sjöttu spyrnu Svíþjóðar en Arjen Robben, sem var þarna að skjótast upp á stjörnuhimininn, skoraði úr síðustu spyrnu Hollendinga.

Þrátt fyrir þennan árangur er Lars Lagerbäck alltaf bjartsýnn og telur íslenska liðið eiga möguleika á sigri þó að brekkan sem hann hefur ekki enn komist yfir sé líklega brattari núna en nokkru sinni áður.

„Ég tel okkur alltaf eiga möguleika,“ sagði Lars sem státar af frábærum árangri gegn enska landsliðinu. Hann hefur sex sinnum spilað við það á sínum ferli, alltaf með Svíþjóð, og aldrei tapað. Þar af er um að ræða sex mótsleiki. „Ég hef alltaf trú á að við getum unnið,“ sagði Lars í gær, en hvers vegna þessi góði árangur gegn Englandi?

„Það er gott að spila við England því það þekkja allir í Svíþjóð líkt og á Íslandi enska boltann. Allir leikmennirnir mínir þekkja þá ensku, hvernig þeir eru og hvernig þeir spila. Í Svíþjóð byggðum við að hluta til á hugmyndafræði Roy Hodgson og Bob Hougton þannig að við þekktum enska boltann og hans hugmyndafræði. Þetta hjálpar allt til,“ sagði Lars.





Lars Lagerbäck.Vísir/Vilhelm
Geta ekki verið guðir í öllu

Sænski blaðamaðurinn Robert Laul hjá Aftonbladet í Svíþjóð hefur fylgt íslenska liðinu hvert fótmál á Evrópumótinu. Hann fylgdist með sænska liðinu allan tímann sem Lagerbäck var þar við stjórnvölinn. Þeir voru vissulega engir vinir þá en hafa verið kumpánlegir hvor við annan í Frakkland. Laul ber mikla virðingu fyrir samlanda sínum og hans afrekum en hefur sínar útskýringar á því hvers vegna lið Lagerbäcks fara aldrei í gegnum fyrstu umferð útsláttarkeppninnar.

„Menn geta ekki verið guðir og snillingar í öllu. Lars er sérfræðingur í því að komast í lokakeppnir og koma liðum upp úr riðli á stórmótum en hann er ekki þjálfari sem vinnur leiki í útsláttarkeppni. Hann rígheldur í sína hugmyndafræði sem er ekki fullkomin ef þú ætlar að vinna leiki í útsláttarkeppni því hún er ansi varnarsinnuð. Hann kemur liðum á stórmót og upp úr riðli en meira er það ekki. Það er alls ekkert slæmt en þetta er eitthvað sem allir þurfa að sætta sig við,“ sagði Laul í samtali við Fréttablaðið.

„Lagerbäck nær öllu út úr liðunum sem hann þjálfar eins og hann hefur gerst með Ísland. Það er samt ekki hægt að fá kökuna og borða hana líka. Ísland er ekki með hæfileikaríkasta liðið frekar en Svíþjóð var með. Hann kreistir allt sem hægt er út úr liðinu en hann getur ekki komist lengra en þetta. Það eru leikmenn íslenska liðsins sem þurfa að bæta leik sinn ætli þeir að komast í gegnum England. Lagerbäck getur ekki töfrað þá áfram.“

Endar gegn Englandi

Eins og fleiri hefur Laul heillast af íslenska liðinu en hann er klár á því að það fari ekki lengra í mótinu.

„Íslenska liðið hefur ekki andlegan styrk í að endurhlaða batteríin og gera betur en það hefur gert. Það sem liðið hefur afrekað hefur kostað mikla orku og það hefur hvorki andlegan né líkamlegan styrk til að keyra sig upp aftur. Þetta endar gegn Englandi sem er synd því það hefur verið æðislegt að fylgjast með þessu ævintýri,“ sagði Robert Laul.

Lars Lagerbäck með sænska landsliðinu á EM 2008.Vísir/Getty
Árangur Lars Lagerbäck í útsláttarkeppnum á stórmótum:

Svíþjóð á EM 2000:

Komst ekki áfram, neðsta sæti í riðlinum

Svíþjóð á HM 2002:

Tap fyrir Senegal, 2-1, á gullmarki í framlengdum leik í 16 liða úrslitum

Svíþjóð á EM 2004:

Tap fyrir Hollandi í vítaspyrnukeppni í 8 liða úrslitum

Svíþjóð á HM 2006:

Tap fyrir gestgjöfum Þýskalands, 2-0, í 16 liða úrslitum

Svíþjóð EM 2008:

Þriðja sæti í riðlinum og komst ekki áfram

Nígería á HM 2010:

Komst ekki áfram, neðsta sæti í riðlinum

Lars Lagerbäck sem þjálfari Svía á EM.Vísir/EPA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×