Innlent

Nærri 80 milljónir í ritun sögu Akraness

„Nú er svo komið að ég hef misst alla tiltrú á orðum sagnaritarans og get því ekki greitt atkvæði með nýjum samningi," segir í bókun Karenar Jónsdóttir þegar hún ein níu bæjarfulltrúa á Akranesi neitaði að samþykkja viðbótagreiðslur vegna ritunar á Sögu Akraness.

„Í rúm tíu ár hefur núverandi sagnaritari þegið greiðslur frá Akraneskaupstað. Samtals að upphæð 73.337.692, miðað við uppreiknaða vísitölu, fyrir það eitt að rita sögu Akraneskaupstaðar," segir í bókun Karenar þegar bæjarstjórnin samþykkti fyrir jól að bæta við 4,3 miljónum króna til að ljúka fyrstu tveimur bindum verksins.

Gunnlaugur Haraldsson þjóðháttafræðingur kveðst hafa fengist við ritun sögu Akraness með hléum frá árinu 1997. Fyrir hafi verið til eitt bindi sem Jón Böðvarsson hafi skrifað. Ákveðið hafi verið að Gunnlaugur tæki við og skrifaði söguna frá árinu 1700. Seinna hafi verið ákveðið að Gunnlaugur myndi skrifa alla sögu bæjarins frá landnámi. Ýmsar aðrar breytingar hafi verið gerðar og hlé verið gert á verkinu oftar en einu sinni.

Gunnlaugur segir að fyrstu tvö bindin, sem nái frá landnámi til ársins 1700 og yfir átjándu öldina verði tilbúin til prentunar næsta sumar, með fjölbreyttum myndun og kortum. Þessi tvö bindi verði samtals á milli 900 og 1.000 blaðsíður.

Þá segist Gunnlaugur búinn að skrifa þriðja bindið. Fjórða bindið, sem nái frá aldamótunum 1900, sé hálfskrifað fram til 1941. „En það hefur enn ekki verið ákveðið hvort ritið verður látið ná fram á sjöunda áratug þessar aldar eða allt til ársins 2000 eins og lagt var upp með," útskýrir hann.

Að sögn Gunnlaugs áttar hann sig ekki á hvort sú framreiknaða tala sem Karen nefnir í bókun sinni sé öll vegna greiðslna til hans eða vegna alls kostnaðar sem hlotist hafi af verkinu. Gísli S. Einarsson bæjarstjóri segir að um sé að ræða heildargreiðslur. „Ég tel að það sé komið svo langt með þetta verk að það væri glapræði að klára það ekki. Þetta er framúrskarandi fagmannlega unnið," segir bæjarstjórinn.

Undir þetta tekur formaður ritnefndar Sögu Akraness. „Við erum mjög ánægð með það sem komið er og það hefði verið fáránlegt að bæta ekki lokapunktinum við," segir Jón Gunnlaugsson.

Karen Jónsdóttir er hins vegar ósátt. „Þau tæp fjögur ár sem ég hef setið hér sem bæjarfulltrúi þá hafa verið gerðir í það minnsta þrír samningar um verklok. Í gegnum tíðina hafa bæjarfulltrúar og nefndarmenn í góðri trú samþykkt/keypt þau rök sem sagnaritari hefur lagt á borð fyrir þá í þeirri trú að senn líði að verklokum."gar@frettabladid.is







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×