Sport

Nærbuxnaþjófur á nærbuxnasamningi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Það hefur verið nóg um að vera hjá Joseph Randle, hlaupara hjá Dallas Cowboys í NFL-deildinni, eftir að hann var handtekinn fyrir búðahnupl í síðustu viku.

Randle var sektaður um tæplega 30 þúsund Bandaríkjadali, um 3,5 milljónir króna, af liðinu sínu vegna málsins en Randle stal bæði undirfatnaði og ilmvatni úr versluninni Dillard's í bænum Frisco í Texas.

Nærbuxnaframleiðandinn MeUndies ákvað að nýta sér þetta tækifæri og fór í samstarf við Randle. Kappinn mun láta út fyrir vörum frá MeUndies fyrir tæpar tvær milljónir króna sem gefnar verða góðgerðarsamtökum og þá mun hann einnig heimsækja nokkra skóla á svæðinu til að ræða við nemendur um hvernig þau geta lært af mistökum sínum.

„Joseph vildi gera eitthvað jákvætt úr þessu máli og hóf samstarf við MeUndies til að gefa aftur af sér til samfélagsins og hjálpa fjölskyldum í neyð,“ sagði í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Ég tek fulla ábyrgð á gjörðum mínum og hef enga afsökun fyrir þeim,“ sagði Randle sjálfur.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×