Viðskipti innlent

Nær helmingur með yfir 500 þúsund krónur á mánuði

ingvar haraldsson skrifar
Ríkisstarfsmenn eru að meðaltali á hærri heildarlaunum en starfsmenn á almennum vinnumarkaði samkvæmt launakönnun Hagstofunnar.
Ríkisstarfsmenn eru að meðaltali á hærri heildarlaunum en starfsmenn á almennum vinnumarkaði samkvæmt launakönnun Hagstofunnar. vísir/valli
Nær helmingur launafólks á Íslandi er með yfir 500 þúsund krónur á mánuði í heildarlaun eða 48%. Þetta kemur fram í launakönnun Hagstofu Íslands.

Flestir eru með á milli 300 og 500 þúsund krónur á mánuði í heildarlaun eða 45%. Þá er 7% launafólks með undir 300 þúsund krónur á mánuði í heildarlaun. Þá eru yfir 29% launafólks með á milli 500 og 700 þúsund krónur á mánuði í heildarlaun og 19% með yfir 700 þúsund krónur á mánuði.

Meðaltal heildarlauna var 555 þúsund krónur á mánuði, 619 þúsund hjá körlum og 486 þúsund hjá konum.

Fleiri launamenn voru með laun undir meðaltali en yfir því, eða 63% launamanna. Þá voru 75% kvenna með heildarlaun undir meðaltali en rúmlega helmingur karla. Þetta skýrist meðal annars af því að það voru fleiri útgildi til hækkunar meðaltals en lækkunar, þar sem kjarasamningar tryggja ákveðin lágmarkskjör en kveða ekki á um hámarkskjör, segir í greiningu Hagstofunnar.

Heildarlaun hærri hjá ríkisstarfsmönnum en á almennum vinnumarkaði

Heildarlaun voru að meðaltali hærri hjá ríkisstarfsmönnum en á hjá þeim sem starfa á almennum vinnumarkaði. Ríkisstarfsmenn fengu að meðaltali 603 þúsund krónur á mánuði en starfsmenn á almennum vinnumarkaði fengu að meðaltali 580 þúsund krónur á mánuði árið 2014 í heildarlaun. Heildarlaun starfsmanna sveitarfélaga voru 442 þúsund krónur.

Þá voru heildarlaun kvenna að jafnaði lægri en karla og dreifing launa þeirra var minni en dreifing launa karla. Opinberir starfsmenn teljast starfsmenn sveitarfélaga og starfsmenn ríkisins sem fá greidd laun frá fjársýslu ríkisins. Aðrir teljast til almenns vinnumarkaðar.



Hæstu launin voru í fjármála- og vátryggingastarfsemi


Árið 2014 voru heildarlaun hæst í fjármála- og vátryggingastarfsemi en þar voru heildarlaun 763 þúsund krónur að meðaltali. Miðgildi heildarlauna var hins vegar hæst í veitum, eða 705 þúsund krónur, en dreifing launa þar er minni en í fjármálageiranum.

Heildarlaun voru lægst í fræðslustarfsemi  en þar voru þau 445 þúsund krónur að meðaltali og var það eina atvinnugreinin þar sem meðaltal heildarlauna náði ekki 500 þúsund krónum árið 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×