Fótbolti

Nær Bandaríkin að hefna ófaranna síðan 2011?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Bandaríkjanna fagna marki í undanúrslitunum.
Leikmenn Bandaríkjanna fagna marki í undanúrslitunum. vísir/getty
Úrslitaleikur heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu fer fram í Kanada í kvöld. Þá mætast Bandaríkin og Japan, en úrslitaleikurinn hefst klukkan 23:00.

Japan, sem á titil að verja, vann England í ótrúlegum leik í undanúrslitunum. Varnarmaður Englands, Laura Bassett, gerði þá lygilegt sjálfsmark í uppbótartíma sem tryggði Japan sigur 2-1.

Bandaríkin vann 2-0 sigur á sterku liði Þýskalands, en Þýskaland klikkaði meðal annars á vítaspyrnu og fjölmörgum dauðafærum. Í átta liða úrslitunum mörðu Bandaríkjastúlkur Kína.

Á HM 2011 mættust þessi sömu lið í úrslitaleiknum, en þá vann Japan 3-1 eftir vítaspyrnukeppni. Ayumi Kaihori, markvörður Japan, reyndist hetjan, en hún varði tvær af þremur spyrnum Bandaríkjanna.

Sjá einnig: England hirti bronsið eftir framlengingu

Ári síðar mættust svo liðin aftur í úrslitaleik, en þá var það á Ólympíuleikunum í London. Bandaríkin vann þá 2-1 sigur með tveimur mörkum frá Carli Lloyd.

„Bæði lið vilja hefna ófaranna. Borið saman við liðin fyrir fjórum og tveimur árum þá hafa liðin vaxið," sagði Saki Kumagai, varnarmaður Japans og bætti við:

„Þetta verður leikur þar sem allir munu sýna hvernig gæði okkar hafa batnað."

Bandaríkin getur orðið fyrsta þjóðin til þess að vinna þrjá heimsmeistaratitla, en liðið varð meistari 1991 og 1999.

„Það eru allir klárir og ég er með löppina á pedalanum. Sjálfstraust okkar er að batna og það varð betra gegn Kína og svo gegn Þýskalandi," sagði Carli Lloyd.

Talið er að rúmlega 53 þúsund manns verði á BC Place leikvanginum í Vancouver í kvöld þar sem úrslitaleikurin fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×