Erlent

Náði að kasta syni sínum áður en hún beið bana

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Í myndbandinu sést hvernig gólfflöturinn gefur sig þegar konan stígur á hann.
Í myndbandinu sést hvernig gólfflöturinn gefur sig þegar konan stígur á hann. vísir/skjáskot
Kínversk kona flæktist í rúllustiga með þeim afleiðingum að hún beið bana. Myndband af atvikinu, sem fangað var með öryggismyndavél, rataði inn á kínverska miðla í gær en þar sést hvernig efsti hluti stigans gefur sig er hún stígur á hann.

Konan hélt á barni sínu en náði að koma því í hendurnar á vegfaranda sem stóð þar skammt undan áður en hún var dregin niður í gangvirki stigans.

Myndbandið má sjá hér að neðan en rétt er að vara viðkvæmar sálir við því sem þar má sjá. 

Kínverski ríkismiðillinn Xinhua greindi frá því að hin þrítuga Xiang Liujuan hafi látið lífið í versluninni Jingzhou Shashi Anliang í gær. Sonur hennar, sem bjargaðist, er á þriðja aldursári. Það tók björgunarmenn næstum fjórar klukkustundir að endurheimta lík hennar úr stiganum ef marka má þarlenda miðla. Að sögn Los Angeles Times var vitað að hluti í gangvirkið hafi vantað í aðdraganda slyssins. Þá er talið að gleymst hafi að festa gólfflötinn eftir að unnið hafði verið að viðgerðum á stiganum skömmu áður en því hefur ekki verið slegið föstu. Enn liggur á huldu hvort starfsmennirnir tveir sem sjá má í myndbandinu hafi vitað að eitthvað væri að stiganum en þeir standa til hliðar við hann, í öruggri fjarlægð frá gólffletinum sem að lokum gaf sig. Kínverskir netverjar eru æfir yfir atvikinu og hafa farið fram á svör frá verslunarmiðstöðinni en hrun gólfsins er enn í rannsókn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×