Sport

Nadal: Mínir bestu dagar á Wimbledon líklega taldir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rafael Nadal var ekkert sérstaklega kátur í gær.
Rafael Nadal var ekkert sérstaklega kátur í gær. vísir/getty
Rafael Nadal, tvöfaldur sigurvegari á Wimbledon-mótinu í Tennis, er úr leik á sama móti eftir tap gegn Þjóðverjanum Dustin Brown; 7-6, 3-6, 6-4 og 6-4, í gær.

Úrslitin komu vitaskuld mikið á óvart enda þurfti Brown að vinna sér inn sæti á mótinu í gegnum undankeppni, en hann er ekki einu sinni á topp 100 yfir bestu tenniskappa í heimi.

„Ég veit ekki hvort ég nái nokkurn tíma aftur að vera jafngóður á Wimbledon og ég var 2008 og 2010,“ sagði svekktur Nadal eftir leikinn, en hann vann mótin bæði árin.

Þetta er fjórða árið í röð sem tennisspilari utan 100 efstu manna heimslistans vinnur Nadal á Wimbledon, en Spánverjinn hefur unnið fjórtán risamót á ferlinum.

„Mín hvatning er núna að komast aftur á þetta stig. Ég verð bara að halda áfram að vinna,“ segir Nadal.

„Ef það gerist ekki þá verð ég að vera sáttur með fimm úrslitaleiki á Wimbledon og tvo sigra. Það er ekkert svo slæmt,“ segir Rafael Nadal.

Rafael Nadal þakkar Dustin Brown fyrir leikinn.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×