Sport

Nadal ekki lægra skrifaður í áratug

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Nadal.
Rafael Nadal. Vísir/Getty
Rafael Nadal hefur hríðfallið niður styrkleikalista Alþjóðatennissambandsins á þessu ári í kjölfar erfiðleika sinna á vellinum á árinu til þessa.

Í síðasta mánuði var Nadal ekki lengur í hópi fimm efstu á styrkleikalistanum í áratug og féll hann niður í tíunda sætið í upphafi mánaðarins.

32 sterkustu keppendunum er raðað á styrkleikalista fyrir tennismót til að forðast að þeir mætist í fyrstu umferðunum. Nadal er í tíunda sæti á listanum sem var gefinn út fyrir Wimbledon-mótið í morgun og gæti því hann mætt einum af sterkustu keppendum mótsins strax í 16-liða úrslitunum.

Nadal er 29 ára gamall og unnið fjórtán risamót á ferlinum, þar af Opna franska níu sinnum. Hann er oft kallaður konungur leirsins enda talinn einn besti leikmaður sögunnar á leirvelli.

Novak Djokovic er efsti maður heimslistans og í efsta sæti styrkleikalistans. Hann vann sigur á Wimbledon-mótinu í fyrra. Roger Federer kemur næstur og Andy Murray er þriðji.

Í kvennaflokki er Serena Williams efst, á undan Petru Kvitova frá Tékklandi sem vann Wimbledon-mótið í fyrra.

Wimbledon-mótið hefst á mánudag og stendur yfir í tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×