Innlent

Ná ekki að veiða um 50.000 tonn af loðnu

Svavar Hávarðsson skrifar
Í Breiðafirði. Hálfur mánuður er liðinn frá því að fréttist af einhverri veiði að ráði.
Í Breiðafirði. Hálfur mánuður er liðinn frá því að fréttist af einhverri veiði að ráði. mynd/Örn Rósmann Kristjánsson
„Þetta er á allra síðustu metrunum. Það er lítið sem ekkert að sjá í dag, ætli þetta verði ekki síðasti dagurinn hjá okkur án þess að ég viti það,“ segir Hörður Guðmundsson, skipstjóri á Sigurði VE, sem var á loðnumiðunum inni á Breiðafirði í gærdag í leit að síðustu loðnutonnunum á þessari vertíð. Nú er ljóst að á milli 40 og 50.000 tonn nást ekki af þeim 393 þúsund tonna kvóta sem var gefinn út fyrr í vetur.

Spurður um ástæður þess að svo stór hlutur loðnukvótans næst ekki, kemur skýring Harðar mönnum vart á óvart. „Það er bara veðrið. Það er búið að vera hrikalega erfitt veðurfar - eiginlega bara skelfilegt. Ef veður hefði hangið sæmilegt einhverja daga þá hefði verið nákvæmlega ekkert mál fyrir skipin að veiða þennan kvóta,“ segir Hörður en Sigurður VE var ekki einskipa inni á Breiðafirði þegar Fréttablaðið hafði samband. Þrjú önnur loðnuskip voru þá á litlum bletti við leit, en á mánudag rak eitt skip í smá afla. Þannig hefur það verið undanfarið - skip hittir á smá torfu en svo ekki söguna meir.

„Það fóru svo fjögur skip norður fyrir land til að leita, inni á Húnaflóa og Eyjafjarðar og á því svæði. Þaðan er ekkert heldur að frétta,“ segir Hörður.

Að tilteknum fyrirvörum um ráðstöfun, gengi gjaldmiðla og ástand mörkuðum, eru hver 100.000 tonn almennt um átta milljarða virði. Samkvæmt því sem Hörður skipstjóri á Sigurði VE segir, og að kvótinn hefði náðst án fyrirhafnar ef veður hefði haldið, þá er tap útgerðarfyrirtækjanna sem eiga mikið útistandandi því töluvert. Mat Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er nokkuð lægra, en miðað við að 40 til 50.000 tonn standi óveidd þá sé verðmætið nær 2,5 til þrír milljarðar, en afurðaverð hafa lækkað eftir því sem liðið hefur á vertíðina. Samkvæmt stöðulista Fiskistofu eru það helst þau félög sem eiga stærstu kvótanna sem skilja umtalsvert magn eftir; Ísfélagið í Vestmannaeyjum, Samherji og HB Grandi.

Aðeins 22 skip hafa veiðiheimildir loðnu, en áhafnir margra þeirra farnar að huga að næstu verkefnum, ekki síst kolmunnaveiðum en í gær voru tvö íslensk skip þegar við þær veiðar inni í íslensku lögsögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×