Viðskipti innlent

N1 harmar ummæli forstjóra Samkeppniseftirlitsins

Svavar Hávarðsson skrifar
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, telur að Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, hafi, án nokkurra raka, vænt N1 um ólögmæta viðskiptahætti í forsíðufrétt Fréttablaðsins í gær.

Málið varðar tvö útboð á eldsneyti til allmargra útgerðarfyrirtækja og smábátaútgerða í fyrra – en samtals voru boðin út 27.500 tonn af eldsneyti. N1 tók ekki þátt í öðru útboðinu, sem Landssamband smábátaeigenda stóð fyrir í lok árs.

Um það sagði Páll Gunnar í fréttinni:

„Í ljósi þeirrar niðurstöðu skýrslunnar að samkeppni sé virkust í stærri viðskiptum kemur það Samkeppniseftirlitinu verulega á óvart að aðeins eitt af stóru olíufélögunum hafi sóst eftir viðskiptum sem eru nokkuð umfangsmikil. Hafi átt sér stað einhver samskipti, milli olíufélaganna sem ekki buðu, sem með beinum eða óbeinum hætti varða umrætt útboð væri um alvarlegt mál að ræða. Samkeppniseftirlitið hefur hins vegar engar upplýsingar um að svo hafi verið,“ sagði Páll Gunnar.

Í erindi sem Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, sendi blaðinu í gær segir:

Eggert Þór Kristófersson
„Vegna ummæla forstjóra Samkeppniseftirlitsins á forsíðu Fréttablaðsins í dag [mánudag] vill N1 taka eftirfarandi fram: N1 áskilur sér rétt til að taka eigin ákvarðanir í málum sem varða viðskipti og rekstur félagsins. Félagið tók einfaldlega ákvörðun um að taka ekki þátt í umræddu útboði, og byggði þá niðurstöðu á sínum forsendum, sinni viðskiptastefnu sem félagið gerði grein fyrir skriflega til útboðsgjafa,“ segir í erindi Eggerts Þórs.

Öllum sé að sjálfsögðu frjálst að hafa sína skoðun á því hvort sú ákvörðun hafi verið rétt eða ekki. „N1 harmar hins vegar að forstjóri Samkeppniseftirlitsins sjái ástæðu til að væna félagið opinberlega um ólögmæta viðskiptahætti fyrir vikið. Það er bæði órökstutt, og ósanngjarnt.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×