Viðskipti innlent

N1 endurgreiðir hluthöfum 3.860 milljónir króna

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Eggert Þór Kristófersson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs N1, á uppgjörsfundi hjá félaginu.
Eggert Þór Kristófersson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs N1, á uppgjörsfundi hjá félaginu. Vísir/GVA
Hlutafé N1 verður lækkað um 30 prósent, eða um 300 milljónir króna að nafnvirði, gangi eftir tillaga sem samþykkt var á fundi hluthafa félagsins á þriðjudag.

Auk hlutafjárniðurfærslunnar var samþykkt að færa yfirverðsreikning hlutafjár félagsins niður um tæpa 3,6 milljarða króna.

„Samtals verður hlutafé félagsins því lækkað um kr. 3.859.628.000 og mun fjárhæðin verða greidd út til hluthafa félagsins hlutfallslega í samræmi við hlutafjáreign þeirra í félaginu í lok dags þann 28. nóvember 2014,“ segir í kauphallartilkynningu félagsins.

Eggert Þór Kristófersson, fjármálastjóri N1, segir aðgerðina í samræmi við þá stefnu sem mörkuð hafi verið við skráningu félagsins í Kauphöllina, að eiginfjárhlutfall félagsins yrði um 40 prósent.

Í síðasta árshlutauppgjöri félagsins var hlutfallið 51,1 prósent.

„Það var mat stjórnar félagins að þetta væri styðsta leiðin til að nálgast markmið félagsins um fjármagnsskipan,“ segir Eggert.

Aðgerðina segir hann ekki vera eins og arðgreiðslu sem greidd sé af hagnaði ársins á undan, heldur sé þarna verið að endurgreiða hluthöfum fé sem sett hafi verið í félagið.

„N1 er fyrsta íslenska félagið í Kauphöllinni sem fer þessa leið,“ segir hann. Endurgreiðslan geti átt sér stað að fenginni heimild ríkisskattstjóra. Tilkynna á um endanlegar dagsetningar til Kauphallar þegar þær liggja fyrir.

Fyrirferðamestu hluthafarnir á lista yfir 20 stærstu eru lífeyrissjóðir og fjármálafyrirtæki. Lífeyrissjóður verslunarmanna er langstærsti hluthafinn með yfir 14 prósenta hlut, næstum helmingi stærri en hluthafarnir í næstu sætum.

Stærstu hluthafar N1 samkvæmt lista Kauphallarinnar um 20 stærstu í byrjun októbermánaðar.
.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×