Erlent

Myrtu tvö hundruð manns í Suður-Súdan

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/ap
Uppreisnarmenn í Suður-Súdan í Afríku myrtu hundruð óbreyttra borgara í bænum Bentiu í síðustu viku en Sameinuðu þjóðirnar greina frá þessu.

Árás var gerð að aðalmosku Bentiu og voru yfir 200 borgarar teknir af lífi og særðust rúmlega 400 manns.

Uppreisnarmennirnir ávörpuðu andstæðinga sína í gegnum útvarpsstöð og hvöttu þá til að yfirgefa Bentiu. Einnig hvöttu þeir karlmenn á svæðinu til að nauðga konum sem tilheyra þjóðernishóp andstæðinga uppreisnarmannanna.

Blóðugir bardagar sem hafa geisað í Suður-Súdan milli uppreisnarmanna og stjórnvalda síðustu mánuði.

Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna hefur hátt í milljón manna hrakist á vergang í landinu frá því að stríðsátök hófust í landinu í desember síðastliðnum, á milli stuðningsmanna forsetans og fyrrum varaforsetans.

Sameinuðu Þjóðirnar halda því fram að rúmlega þúsund manns hafi látið lífið í átökunum, sem spruttu út frá deilum Salva Kiir forseta við Riek Machar fyrrum varaforseta, og að bæði stjórnvöld og uppreisnarmenn hafi gerst sekir um voðaverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×