Innlent

Myrti átta nýfædd börn sín og fer í níu ára fangelsi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dominique Cottrez í réttarsal í dag.
Dominique Cottrez í réttarsal í dag. vísir/afp
Dómstóll í Frakklandi dæmdi í dag konu í níu ára fangelsi fyrir að myrða átta börn sín þegar þau voru nýfædd. Börnin fæddust á árunum 1989-2000 en konunni, Dominique Cottrez, tókst að leyna því að hún gekk með börnin og fæddi þau.



Saksóknari í málinu fór fram á að konan yrði dæmd í 18 ára langt fangelsi en dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að Cottrez væri með skerta dómgreind.

Lögfræðingar konunnar fóru fram á að dómurinn tæki tillit til þess að hún hefði þjáðst af þunglyndi. Einn lögfræðingur sagði Cottrez hafa verið miður sín eftir að ljósmóðir sagði hana vera of þunga þegar hún gekk með fyrsta barnið sitt.

Konunni tókst að fela meðgöngurnar og fæðingarnar, bæði fyrir eiginmanni sínum og læknum, vegna offitu sem hún glímdi við. Í fyrstu kvaðst hún hafa myrt börnin vegna þess að hún óttaðist að faðir hennar sjálfrar væri pabbi barnanna.

Rannsóknir leiddu hins vegar í ljós að maðurinn hennar var faðir barnanna. Cottrez játaði morðin því óvænt síðastliðinn mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×