Erlent

Myrða fjölda manna vegna ótta við uppreisn

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
Vígamenn Íslamska ríkisins hafa myrt tugi fyrrverandi lögreglu- og hermanna á svæðum sem samtökin stjórna í Írak, af ótta við uppreisn. Mennirnir hafa verið skotnir á heimilum sínum, á opnum svæðum eða þeim safnað í hópa og teknir af lífi á undanförnum vikum.

Flestir hafa verið teknir af lífi í borginni Mosul og er aftökunum bæði beint gegn mönnum sem líklegir þykja til að taka upp vopn gegn stjórn IS og til að draga úr vilja borgara á svæðinu. Samkvæmt AP fréttaveitunni hefur IS þurft að hörfa undan vopnuðu sveitum Kúrda, sem og Sjíta.

Í síðustu viku réðust vígamenn inn á heimili fyrrverandi lögreglustjóra Mosul. Lögreglustjórinn Mohammed Hassan og sonur hans náðu að fella þrjá vígamenn áður en þeir voru skotnir. Nágrannar þeirra segja að lík feðganna hafi verið hengd upp nærri heimili þeirra í nokkra daga áður öðrum til viðvörunar.

Hassan var einn þeirra sem lögðu niður vopn sín og lofuðu að slíta öll tengsl við lögregluna, þegar IS tók yfir Mosul í júní. Hann og aðrir lögreglumenn fengu svokölluð „iðrunarmerki“ sem þeir áttu að bera sér til öryggis.

Samtökin Human Rights Watch sögðu í gær að IS hefði tekið um 600 sjíta af lífi, sem voru í fangelsi í Mosul þegar þeir hertóku borgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×