Menning

Myndlistamaður með leiðsögn um verk sín

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þorvaldur Jónsson.
Þorvaldur Jónsson.
Fimmtudaginn 20. nóvember kl. 20 mun Þorvaldur Jónsson myndlistamaður vera með leiðsögn um verk sín á sýningunni Vara-litir sem nú stendur yfir í Hafnarborg.

Þorvaldur Jónsson stundaði nám í myndlist við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan vorið 2009.

Hann vinnur verk sín á viðarplötur og teiknar og málar ótal smáatriði á myndflötinn í björtum litum.

Verkin búa yfir ákveðinni æskuþrá og hafa að geyma útópíska ævintýraheima þar sem ægir saman teiknimyndasögulegum persónum, dýrum og hlutum á nosturslegan hátt. Þorvaldur hefur haldið sex einkasýningar auk fjölda samsýninga hér heima og erlendis.

Sýningin Vara-litir einkennist af litaflaumi og frásagnargleði. Bjartir og fjörmiklir litir eru áberandi á sýningunni og undirstrika óttaleysi og hispurslausa tjáningu listamannanna. Verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að vera hlaðin litum og formum sem endurspegla tíðaranda 21. aldarinnar, þar sem ofgnótt upplýsinga hleður hvert augnablik.

Í verkunum kallast á margslungnir heimar ólíkra listamanna þar sem hlutir og verur leika lausum hala. Á sýningunni eru ný verk eftir Gabríelu Friðriksdóttur, Guðmund Thoroddsen, Helga Þórsson, Huldu Vilhjálmsdóttur, Ragnar Þórisson, Þorvald Jónsson og Þórdísi Aðalsteinsdóttur. Sýningarstjóri er Birta Fróðadóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×