Innlent

Myndband frá vettvangi þegar strætó fór útaf

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Mikil mildi þykir að fá slys hafi verið á fólki og lítið af hlutum skemmst þegar strætisvagni var ekið í gegnum grindverk við Miðhraun í Garðabæ í dag.

Talið er að vagnstjórinn hafi fengið aðsvif, misst tök á vagninum og ekið honum í gegnum geymslusvæði Dráttabíla ehf. Höskuldur Kári Schram, fréttamaður Stöðvar 2, fór á vettvang skömmu eftir slysið og ræddi þar við Pálma Sigurðsson, framkvæmdastjóra Dráttabíla.

Hann sagðist telja að tjónið væri ekki verulegt. „„Nei það tel ég ekki vera. Þetta eru geymslusvæði eins og er. Hann fer hér alveg þvert yfir svæðið og út úr því hinum megin. Þannig að það hefur verið svolítil ferð á honum. Hér eru smáhlutir skemmdir. Að öðru leyti er þetta ekki stórtjón, nema á girðingu og smoterríi.“

Í myndbandinu með fréttinni má sjá skemmdirnar á vettvangi, bæði af geymslusvæðinu og vagninum.

Slysið var tilkynnt tólf mínútur yfir níu og að sögn slökkviliðs voru níu manns fluttir á spítala. Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, sagði að nýr vagn hefði verið ræstur út í stað þess sem skemmdist og að lítil röskun yrði á starfsemi Strætó í dag vegna slyssins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×