Erlent

Myndband af hópnauðgun veldur usla í Brasilíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásin er sögð hafa átt sér stað í fátækrahverfi í Rio.
Árásin er sögð hafa átt sér stað í fátækrahverfi í Rio. Vísir/EPA
Lögreglan í Brasilíu leitar nú rúmlega 30 manna sem grunaðir eru um að hafa nauðgað 16 ára táningsstúlku í Ríó de Janeiro. Myndir og myndband af árásinni voru birt á samfélagsmiðlum og hefur árásin valdið usla í landinu.

Internetátak hefur verið sett af stað vegna árásarinnar og félagasamtök hafa kallað eftir mótmælum gegn því sem kallað er „nauðgunarmenning í Brasilíu“. Árið 2014 voru 47,636 nauðganir tilkynntar til lögregu, en talið er að einungis 35 prósent nauðgana í Brasilíu berist til lögreglu.

BBC segir frá því að stúlkan hafi sagt lögreglu að hún hafi farið í heimsókn til kærasta síns í fátækrahverfi í Ríó um síðustu helgi og þar hafi árásin átt sér stað. Lögreglan sagði vopnaða menn hafa ráðist á stúlkuna, en hún rankaði við sér næsta dag, nakin og í sárum.

Nokkrum dögum seinna komst hún að því að myndefni af árásinni hafði verið birt á Twitter. Myndefnið, bæði myndir og myndband, var svo fjarlægt og notendunum eytt.

Búið er að gefa út fjölmargar handtökuskipanir og þar á meðal á hendur kærasta stúlkunnar.

Amma stúlkunnar segir fjölskylduna hafa horft á myndbandið. Þau hafi strax séð eftir því. Hún segir stúlkuna vera miður sín og í slæmu ásigkomulagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×