Innlent

Myglusveppur á Landspítala - sex læknar fundið fyrir einkennum

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Sex starfsmenn Landspítalans hafa fundið fyrir óþægindum vegna myglusvepps sem greinst hefur á einni hæð í eldri byggingu spítalans. Skipt verður um þá glugga sem hafa lekið í sumar og starfsmenn fluttir annað á meðan.

Myglusveppurinn greindist í desember síðastliðnum eftir að hópur starfsmanna á þriðju hæð í eldri byggingu spítalans kvartaði undan ofnæmiseinkennum í öndunarvegi.

„Þannig að það var gerð rannsókn á sýnum úr byggingunni rétt fyrir jól," segir Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs. „Niðurstaðan var sú að það er ákveðin sveppamyndun undir gluggum sem eru farnir að leka hjá okkur."

Hann segir að klæðningin í húsinu sé úr lífrænum efnum svo sem korki og timbri sem byrja að fúna ef raki kemst í hana.

Myglusveppurinn hefur greinst í um sjö herbergjum þar sem læknar hafa skrifstofu og hvíldaraðstöðu en um sex starfsmenn höfðu kvartað undan óþægindum. Þeir verða fluttir annað þangað til búið er að hreinsa upp sveppinn.

„Næstu skref eru að skipta út þessum gluggum í sumar og síðan hreinsum við þá til innandyra eins og þarf," segir Ingólfur.

Sp. blm. Nú er gjörgæslan hérna á hæðinni fyrir neðan, hefur þetta borist þangað?

„Nei. Það er alveg rétt að gjörgæslan er í þessu húsi. Þetta hús er roðið 80 til 90 ára gamalt og hentar okkar viðkvæmustu starfsemi ekki mjög vel. En sem betur fer hefur þetta ekki greinst nema á þessari skrifstofuhæð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×