Skoðun

Myglusveppir eru ógn við heilsu starfsmanna

Erna Guðmundsdóttir skrifar
Félagsmenn leita í auknum mæli til stéttarfélaga innan BHM til að fara yfir réttarstöðu sína vegna veikinda eða sjúkdóms af völdum myglusvepps á vinnustöðum.

Ein skýring á þessu aukna vandamáli virðist vera langvarandi skortur á viðhaldi hjá stofnunum og fyrirtækjum.

Starfsmenn sendir í veikindaleyfi

Staða starfsmannanna er misjöfn. Í flestum tilvikum er hægt að uppræta myglusveppinn þannig að starfsmenn geti sinnt störfum sínum án þess að veikjast. Því miður er hins vegar allt of stór hópur starfsmanna sem veikist vegna myglusvepps og ekki tekst að uppræta skaðvaldinn. Staða þess hóps er ekki góð. Starfsmenn geta ekki sinnt starfi sínu þar sem hvorki virðist hægt að laga húsnæðið né útvega þeim nýtt húsnæði.

Einu úrræðin sem vinnuveitendur virðast hafa er að senda starfsmennina í veikindaleyfi án þess að þeir séu í raun og veru veikir, nema þegar þeir eru í hinu sýkta húsnæði. Dæmi eru um að starfsmenn séu sendir í veikindaleyfi og séu í því þangað til veikindaréttur þeirra er tæmdur, jafnvel starfsmenn sem eiga hátt í ár í veikindarétt. Þá eru allmörg tilvik þar sem starfsmenn hafa fundið sig knúna til þess að segja starfi sínu lausu þar sem þeir hafa heilsu sinnar vegna ekki getað snúið aftur til vinnustaðarins.

Verða af mörgum dagsverkum

Hve mörg dagsverk eru það sem stofnanir og fyrirtæki verða af, af þeirri ástæðu að starfsmönnum er ekki gert kleift að sinna störfum sínum vegna myglusvepps? Svo ekki sé talað um varanlegan skaða á heilsufari starfsmanna.

Það blasir við að allt of víða er starfsmönnum ekki tryggt öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi og það þarf að bæta. Þá ættu starfsmenn ekki að þurfa að nýta veikindarétt sinn þegar um er að ræða slæman aðbúnað á vinnustað. Það er á ábyrgð vinnuveitenda að tryggja að aðbúnaður sé með þeim hætti að starfsmönnum sé mögulegt að sinna störfum sínum.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×