Innlent

Myglan kostað 160 milljónir

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Á undanförnum tveimur árum hafa miklar endurbætur verið gerðar á húsnæði gamla spítalans við Hringbraut vegna myglu sem þar kom upp í kjölfar leka.
Á undanförnum tveimur árum hafa miklar endurbætur verið gerðar á húsnæði gamla spítalans við Hringbraut vegna myglu sem þar kom upp í kjölfar leka.
160 milljónum hefur verið varið í viðgerðir á byggingu gamla Landspítalans við Hringbraut vegna leka sem var í húsinu.

Skemmdirnar ollu myglu inni í veggjum sem leiddi meðal annars til veikinda meðal starfsmanna.

Heilbrigðisstarfsmenn sem störfuðu í húsinu höfðu fundið fyrir ýmsum einkennum vegna myglunnar. Þegar farið var að rannsaka málið kom í ljós að undir gluggum og í veggjum byggingarinnar var raki sem hafði leitt til myglu inni í veggjum. Meðal annars þurftu þrír læknar að fara í aðgerð vegna þess auk þess sem fleiri heilbrigðisstarfsmenn sem unnið hafa í húsnæðinu hafa haft hin ýmsu einkenni vegna myglunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Ingólfi Þórissyni, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Landspítalans, hefur verið unnið að því síðustu tvö ár að þétta veggi hússins auk þess sem skipt hefur verið um alla glugga byggingarinnar.

„Það er búið að þétta veggi og skipta um glugga til þess að fyrirbyggja raka,“ segir Ingólfur.

Þessi mynd er tekin á einni skrifstofunni en þar er gat á veggnum svo að myglan sést.
Eftir að komst upp um mygluna var skipaður starfshópur til þess að finna lausn á vandanum. Ástand hússins var kannað og hvað væri hægt að gera til þess að vinna að því að bæta það. Auk þess voru könnuð hugsanleg áhrif myglunnar á bæði starfsmenn og sjúklinga. Sýkingavarnardeild Landspítalans rannsakaði hvort myglan hefði haft einhver áhrif á sýkingar meðal sjúklinga.

„Við gátum ekki merkt að það hefði orðið nein aukning á sýkingum af völdum þessa í þessum hópi,“ segir Ólafur Guðlaugsson ofnæmislæknir sem kom að rannsókninni.

Hins vegar kom í ljós að þeir sem unnið höfðu í byggingunni, læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk sem hafði verið lengi í byggingunni, höfðu ýmis einkenni.

Til þess að reyna að hindra frekari myglu var farið í aðgerðir til að þétta veggi hússins. Myglan er hins vegar enn til staðar inni í veggjunum en búið er að mestu að stöðva lekann.

„Nú er verið að meta ástandið í samráði við helstu sérfræðinga landsins og gaumgæfa hvort frekari aðgerða er þörf,“ segir Ingólfur.

Margir læknar þurftu að yfirgefa skrifstofur sínar vegna myglunnar en auk þess hefur mikið plássleysi háð spítalanum. Til stendur að leysa húsnæðisvandann með því að setja upp gáma við spítalann en sú lausn kostar um 120 milljónir. Gámarnir komu til landsins í gær og farið verður í það á næstu dögum að setja þá upp.


Tengdar fréttir

Veiktist vegna myglunnar

Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir, var einn þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem veiktust vegna myglunnar. Hann þurfti að fara í aðgerð á ennisholum vegna þessa og hefur ekki getað notað skrifstofu sína síðan upp komst um mygluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×