Íslenski boltinn

Mútu-ummælum Ólsarans vísað til aganefndar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pontus Nordenberg, sænskur bakvörður Víkings úr Ólafsvík, gæti verið á leið í leikbann fyrir ummæli sem hann lét falla eftir leik liðsins gegn Fylki í 18. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta.

Pontus var verulega ósáttur með störf Péturs Guðmundssonar, dómara, sem gaf Fylki tvær vafasamar vítaspyrnur í leiknum en sleppti tveimur augljósum sem Ólsarar áttu að fá.

Pepsi-mörkin tóku frammistöðu Péturs fyrir í þættinum eftir umferðina og má sjá atvikin og umræðuna í kringum þau hér.

Pepsi Max-vélin var á staðnum í Árbænum á umræddum leik en þar myndaði Arnar Halldórsson, myndatökumaður Stöðvar 2, leikinn frá öðrum sjónarhornum. Eftir leikinn sá hann Pontus ganga af velli og beindi myndavélinni að honum.

„Spurðu þá hvað þeir borguðu dómaranum. Guð minn góður. Þú hlýtur að sjá þetta,“ sagði Svíinn sársvekktur og benti á Fylkismennina sem voru að fagna 2-1 sigri í mikilvægum leik í fallbaráttunni.

Þessum ummælum Pontusar hefur nú verið vísað til aganefndar en það staðfestir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við Fótbolti.net sem greinir frá.

Svíinn gæti verið úrskurðaður í leikbann og/eða fengið sekt fyrir ummælin.

Pepsi Max-vélina má sjá í spilaranum hér að ofan en atvikið með Pontus Nordenberg kemur eftir fimm mínútur og fimm sekúndur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×