Erlent

Múslimar fagna föstulokum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Bænahald múslima í tyrknesku borginni Adana.
Bænahald múslima í tyrknesku borginni Adana. Nordicphotos/AFP
Múslimar um gjörvallan heim fögnuðu í gær hátíðardeginum Eid al-Fitr. Dagurinn markar lok föstumánaðarins Ramadan og var bænahald sem og átveislur af því tilefni víða um heim.

Á Ramadan neyta múslimar meðal annars hvorki matar né drykkjar frá sólarupprás til sólarlags. Ramadan hefst og lýkur á nýju tungli og er mánuðurinn sá níundi í tímatali íslam. Þar sem tímatalið er frábrugðið tímatali Vesturlandabúa færist hátíðin til ár frá ári.

Nýtt tungl sést hins vegar á mismunandi tíma í mismunandi heimhlutum. Þannig fögnuðu Sádi-Arabar, Katarar, Tyrkir og fleiri Eid al-Fitr í gær en Indverjar, Pakistanar og fleiri fagna föstulokum í dag.

Sadiq Khan, fyrsti músliminn sem varð borgarstjóri Lundúna á Bretlandi, óskaði múslimum um heim allan gleðilegrar hátíðar í gær. „Við höfum gengið í gegnum afar erfiða tíma hér í Lundúnum á meðan Ramadan hefur staðið. Á þeim erfiðu tímum hefur verið magnað að sjá hversu vel samfélagið hefur unnið saman,“ sagði Khan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×