Innlent

Munu innsigla íbúðina ef ekki fæst leyfi

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Áttatíu prósent þeirra Airbnb-leigusala sem voru heimsóttir voru ekki með leyfi og eiga von á sektum.
Áttatíu prósent þeirra Airbnb-leigusala sem voru heimsóttir voru ekki með leyfi og eiga von á sektum. Vísir/Anton Brink
„Það var bankað harkalega og mjög ítrekað og ég hélt að það væri verið að brjótast inn,“ segir Jóhanna Andrea Hjartardóttir. Hún er ein af fimmtíu manns sem fulltrúar embættis ríkisskattstjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fóru til vegna Airbnb-leigu á miðvikudag.

Jóhanna býr sjálf í risíbúð hússins en íbúðin sem hún leigir út er á hæðinni fyrir neðan. Tveir menn frá ríkisskattstjóra og einn lögregluþjónn mættu til Jóhönnu um kvöldmatarleytið. „Það dundu yfir mig spurningar, til dæmis hvort íbúðin væri til útleigu, hvort ég væri með leyfi og hvort ég væri í vinnu,“ segir Jóhanna en hún reyndi hvað hún gat að sækja um leyfi hjá sýslumanni í fyrra en fékk neitun. Hún gefur upp tekjur af útleigunni.

„Ég var búin að reyna allt til að fá leyfið. Því var svo hafnað meðal annars vegna brunaútgönguleiðar en húsið er friðað og því erfitt fyrir mig að breyta,“ segir Jóhanna.

Jóhönnu var tilkynnt að ef hún myndi ekki fá leyfi innan tveggja daga yrði lokað fyrir íbúðina. „Þeir sögðu að ég yrði að gera ráðstafanir og sannfæra sýslumann annars yrði lokað fyrir íbúðina. Lögreglumaðurinn var með svona innsiglisborða sem hann sýndi mér,“ segir Jóhanna en það voru gestir í íbúðinni þegar atvikið átti sér stað.  „Þau voru að labba inn þegar þau sáu lögregluna banka með ofsa á hurðina. Þau þorðu ekki að labba inn og fóru í burtu þangað til þeir voru farnir.“

Jóhanna veit ekki hvað gerist í framhaldinu en starfsmaður hjá ríkisskattstjóra hringdi í hana í gær og ítrekaði upplýsingarnar.





Sölvi Melax
Sölvi Melax, talsmaður samtaka um skammtímaleigu á heimilum, segir heimsóknirnar á miðvikudag fordæmalausar. 

„Þarna kemur lögreglan og er með læti þar sem fólk er með gesti. Maður spyr sig hvernig væri að vera gestur í öðru landi og fá þær spurningar frá lögreglunni hvort leigusalinn sé búin að fá leyfi og borga skatta,“ segir Sölvi. 

Hann bætir við að margir sem fengu heimsókn hefðu gert allt til að fá leyfið en kerfið sé úrelt. Hann segir einnig að hvergi á heimasíðu skattsins séu leiðbeiningar um það hvergi skuli greiða skatta af skammtímaleigu. 

Sigurður Jensson, sviðsstjóri eftirlits ríkisskattstjóra, segir enga heimild til staðar til að loka íbúðum ef þær eru hluti af heimili. „Ef það er hins vegar sjálfstæð eining sem er ekki hluti af heimili þá er heimild til þess að loka á grundvelli leyfisleysis eða ef menn eru ekki að standa í skilum.“

Sigurður segir að spjótunum sé beint að höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjunum og að eftirlitið sé með sérstaka starfsmenn sem séu að skoða heimagistingarmál.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×