Erlent

Munu ekki stöðva Breivik vilji hann svelta sig í hel

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hryðjuverkamaðurinn Anders Breivik.
Hryðjuverkamaðurinn Anders Breivik. vísir/epa
Norska fangelsismálastofnunin mun ekki koma í veg fyrir að norski hryðjuverkamaðurinn Anders Breivik svelti sig til bana kjósi hann að fara í hungurverkfall. Breivik hefur sagst búa við ómanneskjulegar aðstæður í Skien-fangelsinu og bæði hótað því að kæra Anders Anundsen, dómstólaráðherra Noregs, og svelta sig í hel.

Í frétt Dagbladet kemur fram að Breivik verði leyft að svelta sig í hel en það er í samræmi við reglur fangelsins um að fangi eigi rétt á að ákveða örlög sín sjálfur án þess að heilbrigðisstarfsmenn grípi inn í.

Þó verður fanginn að skilja fyllilega þær afleiðingar sem hunguverkfall geti haft í för með sér og er það í verkahring fangelsismálayfirvalda að koma Breivik í skilning um það. Þá þarf að halda honum upplýstum um heilsufar hans á meðan á hungurverkfallinu stendur.

Fyrir um mánuði tóku nýjar reglur gildi í fangelsinu þar sem Breivik afplánar dóm sinn. Hann segist nú bara geta átt í samskiptum við starfsmenn fangelsisins í gegnum lúgu í klefa sínum. Þá sé honum haldið meira í einangrun og það svæði sem hann hefur mátt hreyfa sig hefur minnkað. Aðstæðurnar hafa leitt til að hann hefur neyðst til að hætta í námi, en hann hóf nám í stjórnmálafræði við Ósló-háskóla í haust.

Í bréfi sem Breivik sendi norskum og sænskum fjölmiðlum segir hann að ef þessum nýju reglum verði ekki aftur breytt muni hann halda hungurverkfalli áfram þar til hann deyr. „Ég get ekki meira,“ segir Breivik.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×